Hjónin og Siglfirðingarnir Helena Dýrfjörð og Björn Björnsson hafa þetta ár ásamt fleirum staðið í stórræðum við að koma upp bjálkahúsi, svonefndri Grill bálhyttu uppi í Hvanneyraskál.

Hugmyndina að verkefninu fengu þau í ferðum sínum til Noregs, þar sem þetta er mikið notað af útivistarfólki víða um landið. Þau hjónin eru mikið útivistarfólk og náttúruunnendur.

Þegar upp kom sú hugmynd hjá þeim hjónum að þetta væri spennandi verkefni fyrir samfélagið til að hvetja unga sem aldna til útivistar sóttu þau um styrk til Fjallabyggðar þegar auglýstir voru grænir styrkir til umhverfisvænna verkefna.

Verkefnið fékk góðan hljómgrunn hjá Fjallabyggð og hlaut það styrk að upphæð kr. 1.975.0000.-.

Bjálkahús í Hvanneyraskál – Veglegir styrkir Fjallabyggðar

Fóru þau Helena og Björn á fullt að leita að húsi sem mátti ekki vera of dýrt miðað við upphæð styrkjar.

Byko var þeim innan handar, pantaði húsið og styrkti verkefnið með flutningi norður.

Eins og sést á facebooksíðu Grill bálhyttunnar í máli og myndum er þetta búið að vera langt ferli og setti veðrið strik í reikninginn, með snjókomu í vor og rigningarveðri síðsumars, lokaðist þá vegurinn upp í Hvanneyrarskál vegna aurskriðu.

Allt hafðist þetta þó með góðra manna hjálp. Miklu munaði um að sonur þeirra Jón Ingi kom með gröfu og gróf niður 20 stk. af dvergum sem notaðir voru við að festa undirstöðurnar sem flýtti mikið fyrir verkinu.

Sumarið fór í að smíða hyttuna í byggð og undirbúning við að koma henni upp í Hvanneyrarskál. Vaskir menn fóru í það verkefni, BÁS sá um að flytja hana á vörubíl og varð að fá aðstoð gröfu til að draga bílinn upp erfiðasta kaflann.

Þá tók við frágangur hyttunnar, að setja upp sjálft grillið og tók það nokkra daga.

Þessi vinna var að mestu unnin af þeim Helenu og Birni ásamt fjölskyldu og var Fjallabyggð afhent hyttan þann 26. september síðastliðinn.

Vilja þau koma á framfæri kveðju og þakklæti til allra þeirra sem styrktu þetta verkefni á einn eða annan hátt.

Myndir/Helena Dýrfjörð