MÁNABERGIÐ

Ég hafði dvalið á Siglufirði fáeina daga um þetta leyti árið 2016 og lagði af stað þaðan þ. 15. apríl á leið suður yfir heiðar, en þegar ég ók út ströndina í átt að Strákagöngum sá ég hvar Mánabergið ÓF 42 var á leið út fjörðinn.

Ég staldraði við og smellti einni af áður en lengra var haldið, ómeðvitaður um að þetta væri í síðasta skiptið sem ég sæi þetta happafley á siglingu, því árið eftir var það selt til Múrmansk í Rússlandi.

Þegar þetta rifjaðist upp nú í morgunsárið sjö árum síðar, gerðist ég forvitinn og hóf svolitla rannsóknarvinnu á Mánaberginu og fleiri skipum sem hægt var að tengja við það með einum eða öðrum hætti.

Skipið hét upphaflega Bjarni Benediktsson RE 210, síðar Merkúr RE 800 en Sæberg hf. keypti það til Ólafsfjarðar árið 1987 og gaf því nafnið Mánaberg.

Það er smíðað í Pasajes á Spáni 1972 og var eitt þeirra skipa sem nefnd voru “stóru Spánartogararnir” til aðgreiningar frá öðrum skuttogurum sem komu til landsins um líkt leyti.

Á árinu 1997 sameinast Þormóður rammi á Siglufirði og Sæberg á Ólafsfirði undir nafninu Rammi hf. og er þar með Mánabergið komið í eigu hins nýja félags.

Til gamans má geta þess að „stóru Spánartogararnir“ sem flestir ef ekki allir voru smíðaðir eftir sömu teikningu urðu sex að tölu, þ.e. Bjarni Benediktsson (síðar Mánaberg), Júní, Snorri Sturluson, Ingólfur Arnarson, Kaldbakur og Harðbakur.

Síðast þegar ég vissi höfðu allir Spánartogararnir verið seldir úr landi eða í brotajárn nema Ingólfur Arnarson sem Síldarvinnslan á Neskaupstað keypti og gaf nafnið Blængur NK 125.

Það er svo árið 2017 sem hið glæsilega skip Sólberg ÓF 1 er smíðað í Tyrklandi fyrir Ramma hf., en því var ætlað að leysa af hólmi eldri frystitogarana tvo, Sigurbjörgu og Mánabergið.

Það sem er hins vegar svolítið undarlegt, að þetta glæsilega fley getur ekki lagst að bryggju í heimahöfninni Ólafsfirði þar sem það ristir of djúpt fyrir höfnina þar. Það verður því að fá alla sína þjónustu á Siglufirði.

Leó Ólason.