Síðastliðið haust sameinuðust Leikdeild ungmennafélagsins Grettis á Laugarbakka og Leikflokkurinn á Hvammstanga undir nafninu Leikflokkur Húnaþings vestra.
Strax um haustið var farið af stað með barnasýninguna Snædrottningin undir leikstjórn Gretu Clough í þýðingu Sigurðar Líndals. Heppnaðist sú sýning mjög vel og má geta þess að með sýningunni var vígður ljósabúnaður sem Leikflokkurinn og Félagsheimilið Hvammstanga fjárfestu í sem gaf sýningunni flott yfirbragð.
Það er mikil heppni fyrir menningarlífið í Húnaþingi vestra að hafa fengið þau hjón heim, Gretu og Sigurð.
Að lokinni sýningu á Snædrottningunni tók Sigurður við af Gretu og hóf undirbúning í samvinnu við leikfélagið á uppsetningu á söngleiknum Hárið sem verður frumsýndur 17. apríl nk. og verða 5 sýningar um páskana.
Þar mun koma fram 35 manna hópur og endurtaka leikinn frá því 2016 þegar Súperstar var sett upp fyrir um 900 manns.
Sett verða upphækkuð sæti í sal Félagsheimilisins svo að allir sjái vel til sviðs.
Miðapantanir og upplýsingar um sýninguna eru á leikflokkurinn.is
Myndir frá æfingum á Hárinu, ljósmyndarar: Ingibjörg Jónsdóttir og Aldís Olga Jóhannesdóttir.