Á göngu sinni í námunda við gamla verslunarmiðstöð, sem muna má fífil sinn fegri, í Mas Palomas á Gran Canaria, tóku fréttamenn Trölla eftir háværum fjöldasöng, á íslensku.

Við nánari athugun kom í ljós að þarna var vikuleg Söngstund, þar sem á annað hundrað Íslendingar voru saman komnir til að syngja saman, sér til gamans, íslensk lög, á borð við þau sem gjarnan eru sungin á kvöldvökum, árshátíðum og þorrablótum á Íslandi.

 

Söngstund á Kanarí.

 

Hjónin Guðmundur (Brói) Sigurðsson og Anna Lea Björnsdóttir stóðu vaktina með hljóðfærin sín og stýrðu fjöldasöngnum af miklum krafti.

Þess má geta að Ólafsfirðingurinn Bjarney Lea Guðmundsdóttir er dóttir þeirra hjóna, en Bjarney Lea er með BA gráðu í ferðamálaviðskiptum með sérhæfingu í hótelstjórnun og hefur m.a. sett á stofn eigin fyrirtæki – North experience ehf.

Þetta er 14. veturinn sem þau hjónin hafa svokallaða “Söngstund” á Kanarí fyrir Íslendinga, en þau vinna hjá Heimsferðum.

Síðustu árin hefur Söngstundin verði vikulega og er um þessar mundir á miðvikudögum frá kl. 17-18, allan veturinn.

“Þetta er vel sótt, hörku stemming og allir velkomnir” sagði Brói í stuttu spjalli við Tröllahjónin, milli laga.

Að þessu sinni voru hljóðfæraleikararnir nokkuð fleiri en venjulega, en þau Brói og Anna Lea taka gjarnan með sér gesti til að spila með þeim á Söngstund, þótt oftast séu þau bara tvö.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Söngstund 20. febrúar s.l.

 

Söngbók Sigurðar og Bróa var notuð við sönginn, en sú bók hefur að geyma söngtexta fyrir kvöldvökur, árshátíðir, þorrablót og önnur tækifæri, eins og segir á kápu bókarinnar.

 

Myndir og texti: Trölli.is