Stjórn Rannsóknarsjóðs hefur lokið úthlutun styrkja til nýrra rannsóknarverkefna fyrir árið 2022. Um er að ræða stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi (sjá hér). Um 23% umsókna voru styrktar að þessu sinni.

Ekki verður annað sagt en að Háskólinn á Hólum geti gengið sáttur frá borði, en fimm verkefni innan fiskeldis- og fiskalíffræðideildar skólans hlutu styrk. Þar af er gaman að geta þess að allar úthlutanir til doktorsnema á sviði náttúru- og umhverfisvísinda féllu í skaut nema sem stunda rannsóknir við Háskólann á Hólum.

Úthlutanir til Háskólans á Hólum árið 2022 eru:

Verkefnisstyrkir til Háskólans á Hólum á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
• Dr. Skúli Skúlason, 21.266 mkr. í verkefnið „Þættir sem ákvarða breytileika í lífssögu smárra stofna, bæði í tíma og rúmi“, en í verkefninu er haldið áfram rannsóknum og vöktun skólans á bleikju í hraunhellum Mývatns, þar sem lögð verður áhersla á að skilja ættartengsl fiskanna innan hvers hellis og hvernig svipgerð og umhverfi fiskanna geti haft áhrif á árangur þeirra, þ.e. hversu mörg afkvæmi þeir eignast.
• Dr. Stefán Steingrímsson, 18.009 mkr. í verkefnið „Óðalsatferli, fæðunám og félagskerfi laxfiska í ám: Stöðugleiki og mótun“, en innan þess verkefnis er lögð áhersla á stöðugleika og mótun þessa atferlis í tíma og við ólíkar vistfræðilegar aðstæður.

Styrkir til doktorsnema við Háskólann á Hólum á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
• Alessandra Barbara Deborah Schnider, 8.000 mkr. til rannsókna á sveigjanlegu svipfari hjá hornsílum Mývatns.
• Marion Dellinger, 7.714 mkr. til rannsókna á samþættingu vist-, þróunar- og þroskunarfræðilegra þátta rýmisgreindar og persónuleika samsvæða bleikjuafbrigða.
• Roseanne Beukeboom, 7.714 mkr. til samanburðarrannsókna á einstaklingseinkennum sem metin eru á rannsóknarstofu og úti í náttúrunni.