Háskólinn á Hólum hlýtur Byggðagleraugu SSNV árið 2024 fyrir framsækið og metnaðarfullt háskólastarf.

Námið við háskólann er sértækt að því leyti að það byggir á traustum grunni fyrir mikilvægar framtíðar atvinnugreinar í samfélaginu þar á meðal íslenska hestinn, ferðaþjónustu í dreifbýli og fiskeldi. Í Háskólanum á Hólum er öflugt háskólastarf sem er í stöðugum vexti og nýsköpun.

Háskólinn á Hólum hefur mikla þýðingu fyrir samfélögin á Norðurlandi vestra enda mikils virði að hafa starfandi háskóla á svæðinu. Skólinn skapar mörg störf fyrir landshlutann og er í miklum vexti.

“Það er mikilvægt fyrir okkur að styðja við öfluga háskólastarfsemi á okkar landsvæði því þannig náum við að byggja upp sjálfbært samfélag með fjölbreytt atvinnulíf. Byggðagleraugu SSNV 2024 skipta okkur máli, þau vekja athygli og áhuga á skólanum og hvetja okkur sem störfum við skólann að halda áfram á okkar braut“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir rektor við Háskólann á Hólum .

Byggðagleraugun voru veitt á 32. Ársþingi SSNV þann 11. apríl. Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV afhenti Hólmfríði Sveinsdóttur rektor við Háskólann á Hólum viðurkenninguna.

Hólmfríður Sveinsdóttir rektor og Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV

Mynd/SSNV