Í gær á sjómannadag, voru tveir sjómenn heiðraðir á Siglufirði. Það voru þeir heiðursmenn Gísli Jónsson og Hersteinn Karlsson.
Var það Slysavarnadeildin Vörn á Siglufirði sem stóð að viðburðinum ásamt því að leggja blómsveig að minnisvarða týndra og drukknaðra sjómanna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé flutt ávarp og má lesa það hér í heild sinni að neðan.
“Komið þið sæl,
Mig langar að byrja á því að þakka kærlega fyrir þann mikla heiður sem mér er sýndur með því að vera beðinn að halda erindi á þessum degi. Sjómannadeginum man ég fyrst eftir hér á Sigló. Karl heitinn faðir minn, Óttar Proppé, hélt þá erindi sem bæjarstjóri Siglufjarðar og það er mér sérstök ánægja að fá að feta í fótspor hans. Á þeim árum var ég þó meira fyrir að detta í sjóinn af gömlu síldarbryggjunum en halda ræður, svo það er gaman að fá að breyta aðeins til núna.
Fyrir mér hefur alltaf verið ljómi yfir þessum degi. Mér er til efs að margar aðrar þjóðir haldi hátíð fyrir sjómenn og viðurkenni með því mikilvægi þeirra í samfélaginu. Ég játa að þetta er óvísindaleg niðurstaða, því ég hef ekki rannsakað siði annarra þjóða til hlítar í þessum efnum. En mikilvægi sjómanna; það er það sem við eigum að hafa í huga á þessum degi.
Og það er ágætt að hafa það í huga að þó samfélagsgerðin breytist, þá gegnir sjórinn og það sem hann gefur enn lykilhlutverki í því samfélagi sem við höfum búið okkur og boðið gestum inn í. Nýting sjávar hefur breyst, orðið fjölbreyttari, þannig að nýjar atvinnugreinar hafa sprottið upp við hlið þeirra hefðbundnari. En aldrei megum við gleyma okkar rótum, sjálf tilvist Siglufjarðar byggist á sjósókn.
Ef ég má gerast svo djarfur að ráðleggja nýstofnuðum meirihluta bæjarstjórnar heilt, þá bið ég þau sem hann skipa að hafa sjóinn, höfnina og starfsemina sem þar verður til, bæði bein og afleidd störf, ætíð í huga í sínum störfum og skipulagi. Hvar værum við án sjósóknar, jafnvel þau okkar sem aldrei hafa stigið á skipsfjöl?
Sjórinn. Það er hægt að segja svo margt um hann og ekki veit ég hvernig fólk sér fyrir sér að svona erindi eigi að vera, hafi það yfirhöfuð einhverja skoðun á því. Af nógu er að taka þegar að umræðuefnum tengdum sjávarútvegi kemur. Við gætum farið í umfangsmikla greiningu á afleiðingum kvótakerfis, tilfærslu vinnslu, réttmæti línuívilnunar, hvort rækju- og skelbætur eigi rétt hjá sér, hvernig hægt sé að tryggja 48 daga á strandveiðum og hvort núverandi kerfi við grásleppuveiðar, þar sem dagafjöldi eru fastur við hvern bát, sé hið besta. En sannast sagna nenni ég því ekki. Það er töluvert síðan ég uppgötvaði að mínar skoðanir eru sko alls ekki alltaf réttar og enn lengra síðan ég hætti að nenna að reyna að fá fólk til að skipta um skoðun. Að koma mínum skoðunum, hafi ég þær þá nokkrar, upp á aðra heillar mig ekki lengur. Líklega er það aldurinn.
Umræður um sjávarútveg hafa tilhneigingu til að snúast aðeins um kvóta og framsal aflaheimilda og reyndar upp á síðkastið hvort sjónvarpsþáttaserían Verbúðin sé í raun heimildarmynd um lífið í sjávarplássi um miðjan níunda áratug síðustu aldar eða skáldskapur. Sjálfur man ég vel lífið í sjávarplássi um miðjan áratuginn, því það hefur líklega verið árið 1985 sem Gulli Sínu valdi okkur þrjá stærstu strákana í bæjarvinnunni til að koma að vinna í gamla Rammanum, því það var svo mikið af fiski. Þar með hófst þátttaka mín í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.
Já, ég ætla sem ég fyrst og fremst að tala um sjálfan mig. Kannski er það ekkert skrýtið; það er ekki nema um ár síðan ég hætti sem Alþingismaður og sjálfhverfa pólitíkurinnar er ekki alveg horfin.
Ég var 17 ára þegar ég fór fyrst á sjóinn. Þá var ég fluttur suður í Kópavog og togarann Hilmi SU171, sem gerður var út frá Fáskrúðsfirði, vantaði háseta í hvelli. Á útstíminu hafði einn skorið sig það illa að snúa þurfti við til að koma honum undir læknis hendur. Ekki leist þeim endilega á að fá þennan gutta, en hann hafði það með sér að hafa unnið nokkur sumur í frystihúsi; einmitt í gamla Rammanum. Vanur því að vinna í tækjum og átti að kunna öll þau handtök, hafði bara aldrei á sjó komið.
Hilmir lagðist að bryggju, hásetinni sundurskorni fór í land og ég skaust um borð og með það var haldið aftur af stað. Ég stóð einn upp á dekki og vissi ekki alveg til hvers var ætlast af mér og enginn nærri til að spyrja ráða. Hafði ekki fengið miklar ráðleggingar áður en haldið var úr höfn, raunar aðeins eftirfarandi ráð frá Kela bróður: Ef það þarf að tvíræsa þig þá drep ég þig. Ég ætlaði því ekki að láta neinn eiga neitt inni hjá mér, kom mér í stakkageymsluna og fór í gallann sem var svo brakandi nýr að hægt hefði verið að sporðskera grálúðu með brotunum í buxunum og það lýsti neonbirtu af mér. Aftur út á dekk og klár í slaginn. Þar var hins vegar enginn. Ég rölti aðeins um, reyndi að sýna það með líkamsburðum að ég væri sko tilbúinn, en enginn sá þá tilburði. Eftir um hálftíma gafst ég upp og kom mér niður í mastal. Þar voru allir að horfa á upptöku af tónlistarþættinum Skonrokk á vhs-spólu, löngu búnir að gera allt klárt enda búnir með næstum heilt útstím og heimstím og í sínu öðru útstími í sama túrnum. Hvar varst þú? spurðu þeir forviða þegar grænjaxlinn lét loksins sjá sig.
Þannig hófst mín sjómennska og Kela bróður til huggunar þurfti aldrei að tvíræsa mig. Raunar var ég svo passasamur með það að lengi vel máttu menn ekki ganga í sakleysi sínu fram hjá klefanum mínum, þá stökk ég fram úr kojunni til að vera klár á vakt, þó enn væri fullt eftir af frívaktinni.
Aldrei mun ég gleyma því þegar ég vaknaði við „Ræs, það er allt að fara til helvítis,“ stökk fram úr og lenti í ökkladjúpum ísköldum sjó í klefanum. Hleri hafði verið opnaður, leki kom að og allt útlit fyrir að báturinn færi niður. Við vorum komnir í flotgalla uppi í brú þegar tókst að komast fyrir lekann.
Sjórinn tekur nefnilega líka, hann gefur ekki bara, og miskunnarleysi náttúruaflanna er jafn gríðarlegt og gjafmildi náttúrunnar getur verið mikil, förum við rétt að henni. Við erum nefnilega öll náttúrubörn, sem búum í þessum firði. Fjöllin halda utan um okkur hvern dag, Hólshyrnan er föst á auganu, sjórinn í hlustunum og nösunum. Skiptir engu hvort við vinnum á skrifstofu, í Skálarhlíð eða stígum ölduna við fiskveiðar. Sjórinn og náttúran eru í vitund okkar.
En svo eru þeir sem gera það að ævistarfi að glíma við náttúruna í návígi, sækja sjóinn. Sumir skilja það ekki, en sjórinn getur krækt í mann. Þá á ég ekki við þá tíðu mannskaða sem þar hafa orðið, sérstaklega fyrr á tíð og okkur hefur sem betur fer tekist að fækka, heldur huga manns, vitundina. Hann getur smogið inn í blóðrásina þannig að maður verði friðlaus ef maður ekki kemst á sjóinn.
Öll ættu að reyna það að standa á dekki um miðja nótt og líta upp í stjörnubjartan himinn skreyttan norðurljósum, að finna að veröld þín vaggar öll í takt við öldurnar sem stundum kasta þér til og frá, að sjá ekki til lands og himinn og sjór renna saman.
En er þetta ekki bara vinna? Jú, auðvitað er þetta það. Og fyrir sumum sjómönnum ekkert merkilegri en hver önnur vinna, en ég er ekki sumir sjómenn. Ég er í hjartanu bara rómantískur strákpjakkur sem ólst upp við fjöruna og sjórinn hefur alltaf heillað.
En þetta er vinna og oft og tíðum helvíti erfið vinna, afsakið orðbragðið. Fjarvistir frá fjölskyldu, aðbúnaður sem fáir í landi mundu sætta sig við, hættulegar aðstæður, glíma við náttúruöflin því stundum er veður, það þarf að rífa sig upp þegar veiði er von hvað sem klukkan segir og svo þarf að fara eftir því sem fólk á þingi og í ráðuneytum ákveður varðandi fyrirkomulag fiskveiða.
Já, sjómennskan er ekkert grín. Við erum hér saman komin til að heiðra tvo öndvegismenn sem hafa samanlagt stundað sjóinn í um það bil eina öld. Hersteinn Þráinn Karlsson og Gísli Jónsson.
Hersteinn Þráinn Karlsson er fæddur 29 maí 1948 á Siglufirði. Það má segja að fyrstu skref hans í sjómennsku hafi verið stigin þegar þeir vinirnir smíðuðu kajak úr timbri og bárujárnsplötum sem pollar og settu á flot við höfnina. En Steini, eins og hann er alltaf kallaður, fór fyrst til sjós á Sigurði SI 90. Þaðan lá leiðin á Hring SI 34 og þar var hann í nokkuð mörg ár. Þegar Hringur var síðan seldur keyptu þeir Steini og Sverrir Óla saman Grím Si 5 og gerðu út frá Siglufirði. Síðar keyptu þeir svo Kolbein í dal, 24 tonna bát, og Jökultind, sem var stálbátur. Steini var svo á Tjaldinum í nokkur ár og sigldi svo á Ameríku með frosinn fisk á Skaftfellinu, þar sem hann var bátsmaður. Einnig var hann á Ragga Gísla og Guðrúnu Jónsdóttur.
Á sínum sjómannsferli átti hann því láni að fagna að bjarga þremur mönnum úr sjó.
Sjómennskan hefur alltaf átt hug hans og hjarta. Óteljandi rúntar á bryggjuna til að fá fréttir af aflabrögðum og út í göng til að athuga með veðrið. Stefnan var svo að fá sér litla jullu til að sigla út fjörðinn og renna í soðið en heilsan gaf sig því miður allt of snemma.
Gísli Jónsson er fæddur 2. desember 1948. Hann fór ungur á sjóinn, eftir fermingu var hann tvö sumur á trillu með Steingrími Viggós. Þó hann hafi alltaf verið sjóveikur og ælt eins og múkki, eins og hann sagði nýverið í viðtali við Helluna, fannst honum þetta fínt. Sextán ára gamall byrjaði hann á togaranum Hafliða og var þar næstu þrjú árin. Þá réði hann sig á Fanneyju RE, sem SR átti en hún átti að fiska fyrir frystihús SR, fyrsta frambyggða skipið á Íslandi. Sú vist varð ekki löng, því leki kom að bátnum þegar verið var að sækja hann suður og allir fóru í björgunarbátana á meðan skipið sökk. Þá fór Gísli á Stígandi frá Ólafsfirði og svo á Margréti SI 4. Gísli setti á þessum árum pening í hlutafélagið Togskip hf. og eftir tvö ár var Margrét seld til Hafnarfjarðar og Dagný keypt. Útbúin var skutrenna á hana sem var bylting. Þar var Gísli til 1974 og næstu tvö ár á sjó á Berghildi frá Hofsósi. Eftir tvö ár á Stálvíkinni, sem Þormóður rammi gerði út, tók við um 20 ára tímabil þar sem Gísli var á bátum sem bræðurnir Haukur og Siggi Valli Jónssynir gerðu út, ýmist saman eða Haukur einn. Árið 1999 kom Gísli í land og vann á netaverkstæði, en það entist bara um nokkurra mánaða skeið því þá fór hann á Múlabergið. Í september 2017 kom hann svo í land eftir 54 ár til sjós.
Gísli hefur upplifað ýmislegt á sínum sjómannsferli en sagði í umræddu viðtali í Hellunni að í heild hafi hann átt góðan tíma til sjós, lítið meitt sig og sloppið vel frá þessu öllu saman.
Góðir gestir.
Ég lít á það sem eitt af verkefnum samfélagsins að búa til sem besta umgjörð svo hægt sé að stunda fiskveiðar á Íslandi. Svo sjómenn hafi það sem allra best. Svo sjávarútvegur setji svip sinn á samfélagið. Og það gerir hann svo sannarlega hér. Ímyndið ykkur hvernig væri umhorfs í höfninni ef ekki væri fyrir lífið þar, löndun á markað, báta á leið í róður. Hvernig væri ferðaþjónustan ef sjórinn byði ekki upp á það líf sem hann gerir? Hvernig væri atvinnustigið ef hér væri ekki vinnsla og einhver stærsta þorsklöndunarhöfn landsins? Hvernig væri bæjarfélagið ef hér væru ekki tvö líftæknifyrirtæki sem ynnu vörur úr sjávarfangi? Hvernig væri þjónustustigið í bænum ef ekki væri fyrir sjóinn? Og umfram allt, hvernig væri mannlífið hér?
Já, við eigum sjómönnunum margt að þakka, þeim sem berjast við óblíð náttúruöfl til að sækja verðmæti í hafið.
Sjómenn, og við öll, til hamingju með daginn”.
Myndir/Guðmundur Gauti Sveinsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé