Heimildamynd um síldveiðar við Íslandsstrendur

Minningar um síldveiðar við Íslandsstrendur eru ekki bara skráðar heima á klakanum, í bækur, sjónvarpsþætti og fl.
En eins og ætíð, þá er ekki hægt að minnast á síld án þess nefna Siglufjörð, höfuðborg síldarinnar í sömu setningu.

Pistlahöfundur er síðan nokkur ár til baka ritari í hinum sögufræga félagsskap Bohuslenskra síldveiðimanna við Íslandsstrendur sem stofnað var árið 1933 og var það á sínum tíma samvinnufélag báta- og síldarverksmiðjueigenda sem lögðu allt undir í að senda rekneta- og snurpunóta báta í þriggja mánaða langa síldveiðitúra við Íslandsstrendur í áratugi á síðustu öld.

Í dag sér þessi félagsskapur um dágóðan peningasjóð og gefur árlega úr honum styrki til þeirra aðila sem vinna við að halda þessari merkilegu Samnorrænu síldveiðisögu lifandi.

Félagið bauð meðlimum og gestum í veglegt jólahlaðborð í Gustafberg rétt hjá Uddevalla og samtímis var boðið upp á frumsýningu og fyrirlestur um nýja heimildakvikmynd sem félagið hefur styrkt í tvígang síðustu tvö ár.

Kvikmynd sem við öll getum vonandi fengið að sjá í Síldarminjasafni Íslands heima á Sigló næsta sumar.

Bodil Tingsby kynnir fræðslukvikmyndina “Silfur hafsins, um hugreki og löngum, í leitinni af síld”, sem verður um einn klukkutími að lengd þegar klippingu og eftirvinnslu er lokið. Hún hafði með sér eiginmanninn Thomas Hjertberg sem tæknilegan aðstoðarmann, en hann er prófessor emeritus við Chalmers tækniháskólann í Gautaborg.

Bodil er sko ekki hver sem er, en hún vann meðal annars lengi við þáttagerð hjá Sænska Ríkissjónvarpinu og líka hjá Norrænu Ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir að hún sé komin á eftirlaun er hún stanslaust að vinna í sögum, bæði sem rithöfundur og sem kvikmyndagerðarkona, sem og öðrum verkefnum sem henni finnst skemmtileg.

Við fengum að sjá valin atriði úr kvikmyndinni og þar á milli skapaðist heilmikil umræða meðal áhorfenda, sem margir hverjir eru gamlir Íslandssíldveiðimenn og töluðu þeir mikið um að þrátt fyrir að þetta hefði auðvitað verið spennandi ævintýri. Þá voru þessir löngu síldveiðitúrar fjárhagslega áhættusamir og hættulegir. Oft voru þeir illa haldnir af heimþrá og löngun til að fá að knúsa börnin sín og konur.

Eiginkonur þeirra töluðu líka um þá miklu ábyrgð á börnum og búi, sem lentu á þeim einum, sem og heilmiklar áhyggjur sem þær höfðu þegar litlar eða engar fréttir bárust um velgengni eða mótlæti um síldveiðarnar þarna langt úti á sjó norður í þessu einskins manns landi.

Bodil hefur fengið til sín og unnið úr heilmiklu af Íslensku síldarkvikmyndaefni sem kemur frá Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði, Kvikmyndasafni Íslands og RÚV. Henni tókst meira að segja að fá til sín neðansjávar kvikmynd af síldartorfum frá Noregi.

Sem Siglfirskur áhorfandi gat pistlahöfundur lagt orð í belg um ýmislegt sem bar fyrir augum og eyrum og það var ekki verra að með mér í för var Sigurbjörg Óskarsdóttir sem er fædd og uppalin á Seyðisfirði sem er tvíburasíldarfjörður Siglufjarðar.

Við félagsmenn söknuðum hins 93 ára gamla Bernt Bennis, en hann og marga aðra gamla sjóara sáum við í mynd, þegar hann situr að bjórsvamli með góðum síldarfélögum heima í Kungshamn. Hann og nokkrir aðrir sem sjást á myndinni hér undir komu til Siglufjarðar sumarið 2018 á Standmenningarhátíð, samfara Þjóðlagahátíð sem haldin var á 100 ára kaupstaðarafmælisári Siglufjarðar.

Félagið setti þar upp sýninguna “Á leið til Íslands” í myndrænu formi út á göngubryggju við Síldarminjasafnið í samvinnu við Bohusläns Museum.

Skjáskot. Bernt Bennis, 93 ára gamall síldveiðisjómaður.
Meðlimir, eiginkonur og gestir félagsins Bohuslenskra síldveiðimanna við Íslandsstrendur á spjalli við Bodil Tingsby.

Bodil hefur lagt á sig heilmikla heimildarvinnu við að afla gagna og tekið mörg viðtöl við fólk á vesturströnd Svíþjóðar sem muna þessa sögu og hún styðst einnig við heimildir úr bók sem Erling Larsson, einn af meðlimum félagsins tók þátt í að taka saman og gefa út 2019.

Sjá meira hér um þessa bók og sýninguna við Síldarminjasafnið.

Siglufjörður er og verður alltaf höfuðborg síldarsögunnar

Að vinna að gerð heimildarkvikmyndar um síldveiðar í miðjum kórónuveirufaraldi var bæði lán og lán í óláni. Það var oft erfiðleikum háð að hitta eldra fólk varðandi viðtöl, en samtímis gat Bodil fengið aðstoð hjá góðum atvinnumanneskjum úr kvikmyndageiranum sem flestir urðu atvinnulausir á þessu tímabili.

Pistlahöfundur veit fyrir fram að þetta verður söguleg og glæsileg “dokumentär” kvikmynd hjá Bodil Tingsby. Því ég horfði nýlega agndofa á heimildakvikmyndina ”Emilie – Sveriges första kvinnliga deckarförfattare” í sænska ríkissjónvarpinu.

Þar rekur Bodil sögu Emilie Flygare Carlén (1807–1892) en hún er sögð fyrsti sakamála kvenrithöfundur Svíþjóðar og talin upphófsmaður að hinum svokallaða Norræna sakamálasögu stíl. Emilie var í áratugi heimsfræg og stærsti höfundur Norðurlanda og þó víða væri leitað, en úr því að hún var kona sem fæddist á röngum tíma hefur hún meira og minna verið skrifuð út úr Sænskri bókmenntasögu af þá- og seinni tíma karlrembusvínum sem sáu ofsjónir yfir tekjum hennar og frægð.

Bodil gaf einnig út í ár bók um Emilie, sem er í rauninni skáldsaga sem byggir á lífi þessarar einstöku konu.

Bókin “Ég heiti Emilie” eftir Bodil Tingsby.

Að lokinni sýningu, göngum við saman út úr þessu sögufræga skólahúsi í Gustafsberg og yfir götuna, en þar beið okkar glæsilegt sænskt Jólahlaðborð.

Það er hefð fyrir því að maður byrjar alltaf á SÍLDINNI, hvað annað! Pistlahöfundur smakkaði um 20 ólíka síldarrétti.
Dásamlega gott, þeir kunna svo sannarlega á sinn þjóðarrétt Svíarnir.

Við borðuðum yfir okkur þarna í Bad-resturangen í dásamlega fallegu umhverfi og héldum áfram að tala um síldveiðar, Siglufjörð og Seyðisfjörð og skoða gamlar síldveiðiminninga ljósmyndir.

Bad-resturangen í Gustafberg.

Gleðileg síldarsögu Jól.

Höfundur, ljósmyndari og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Aðrar sögur, greinar og fleira eftir sama höfund á trölli.is, sjá yfirlit hér:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON