Sunnudaginn 8. ágúst var gerður út leiðangur í Héðinsfjörð til að hreinsa plastrusl af fjörukömbum og nálægu umhverfi. Siglt var á Örkinni hans Gunna, en Gunnar Júlíusson lagði fram skip sitt og vinnu í þágu þessa góða málefnis. Alls voru 15 manns á öllum aldri um borð, sem tilbúnir voru að leggja á sig mikla vinnu þegar í land var komið. Einnig tóku landeigendur þátt í hreinsuninni. Og sveitarfélagið Fjallabyggð veitti aðstoð.

Hreinsun Héðinsfjarðar hófst fyrir nokkrum árum en fyrir alvöru síðasta haust að frumkvæði og með einstakri atorku þeirra Ragnars Ragnarssonar (Ragga Ragg) og Lísu Dombrowe – og var þá mikið magn plastúrgangs flutt frá Héðinsfirði til endanlegrar förgunar – sjá:

Rusli fleytt eftir Héðinsfjarðarvatni

https://www.fjallabyggd.is/is/moya/gallery/index/index/hreinsun-i-hedinsfirdi/hreinsun-i-hedinsfirdi

Hreinsunarvinnan að þessu sinni gekk með ágætum eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Níu stórir sekkir voru fylltir og fluttir til hafnar á Siglufirði, á.a.g. 12-15 rúmmetrar. Mikið af plastinu – aðallega leifar veiðarfæra og fiskikassa og kara – virðist hafa safnast þarna á mörgum áratugum og margt hvert gróið ofan í jörðina. Eftir þennan síðasta leiðangur má ætla a.m.k. 90% af plastruslinu í Héðinsfirði hafi verið tekið og flutt burt.

Texti: ÖK, forsíðumynd: HÖ