Fiskidagurinn mikli heiðraði sem fyrr þá sem hafa með jákvæðum hætti haft áhrif á atvinnusögu Dalvíkurbyggðar og íslenskan sjávarútveg. Fleiri voru að þessu sinni heiðraðir en ella í ljósi þess að Fiskidagurinn var ekki hátíðlegur haldinn á árunum 2020, 2021 og 2022.
Fyrir árið 2020 heiðrar Fiskidagurinn mikli Vigfús Jóhannesson fyrir farsælan skipstjórnarferil.
Árið 1970 réðst Vigfús til Útgerðarfélags Dalvíkinga og árið 1974, þegar Björgvin EA 311 kom fyrstur skuttogara til Dalvíkur, varð Vigfús þar fyrsti stýrimaður og síðan skipstjóri árið 1977. Nafn Vigfúsar og togara með nafnið Björgvin varð samtengt lengi því árið 1988 varð hann skipstjóri á nýjum og glæsilegum Björgvin EA 311 og með það skip var hann til 2002. Björgvin er enn gerður út frá Dalvík.
Vigfús átti einstaklega farsælan feril og sama áhöfn fylgdi honum í áratugi. Áhöfn Björgvins var heiðruð af hálfu Íslenskra sjávarafurða fyrir uppbyggingu gæðakerfis, góð vinnubrögð og vel unnin störf.
Fyrir árið 2021 heiðrar Fiskidagurinn mikli Sigurð Tryggva Konráðsson fyrir fjölbreytt störf í sjávarútvegi.
Fjölskyldufyrirtækið Sólrún á Árskógsströnd var stofnað 1961 og var Sigurður einn af stofnendum þess ásamt föður sínum og elsta bróður. Fyrirtækið hefur síðan í einni eða annarri mynd verið með útgerð frá Árskógssandi frá 1961 og jafnframt fiskverkun til 2006. Síðan 2006 hefur fyrirtækið starfrækt fiskmarkað á Árskógssandi. Frá 1970 til 1986 stunduðu Sólrúnarmenn hrefnuveiðar og má segja að Árskógssandur hafi um árabil verið höfuðstaður hrefnuveiða við Ísland. Þeir urðu einnig frumkvöðlar hér á landi í Japansviðskiptum með hrefnuafurðir. Fyrirtækið Sólrún hefur um árabil verið kjölfesta í atvinnulífi á Árskógssandi og gerir nú út tvo báta þaðan, Sólrúnu EA 151 og Særúnu
EA 251. Sigurður hefur lengst af unnið þar ýmist sem sem skipstjóri og/eða stjórnandi í landi.
Fyrir árið 2022 heiðrar Fiskidagurinn mikli Hartmann Kristjánsson fyrir sjómennsku. Hartmann Kristjánsson var heiðraður fyrir sjómennsku í áratugi á ýmsum skipum og bátum frá Dalvík. Hann hefur stundað flestan veiðiskap og varið starfsævinni á sjónum. Hartmann var lengi á Lofti
Baldvinssyni EA 24 á síld í Norðursjó en fór jafnan að ókyrrast þegar voraði og tók þá frí til að sinna grásleppunni. Hann tók líka þátt í rækjuævintýrinu á Dalborg EA 317 en lengst var hann á Björgvin EA 311. Þar hætti hann upp úr aldamótum 2000, þá kominn hátt á sjötugsaldur. Smábátasjómaðurinn
Hartmann hefur líka um árabil róið frá Dalvík á báti sínum, Valþóri EA 313.
Fyrir árið 2023 heiðrar Fiskidagurinn mikli erlent verkafólk í fiskvinnslu á Dalvík. Fiskvinnslufólk af erlendum uppruna fór að verða áberandi á Dalvík á fyrstu árum nýrrar aldar. Þá höfðu miklar breytingar átt sér stað í útgerð og fiskvinnslu sem kölluðu á fleiri vinnufúsar hendur. Mörg þeirra er komu til starfa í sjávarútvegi á Dalvík ílengdust, sum komin í önnur störf og láta til sín taka á ýmsum sviðum.
Fiskidagurinn mikli fagnar fjölbreytileikanum og því fólki sem komið hefur um langan veg til að taka þátt í atvinnulífi og samfélagi Dalvíkurbyggðar.
Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, sá að venju um heiðrun Fiskidagsins mikla og naut að þessu sinni aðstoðar Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.
Mynd/aðsend