Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hyggst fjarlægja númerslausa bíla og annað á lóðum sem þykir til lýta á umhverfi.
Samkvæmt tilkynningu frá HNV er leyfilegt að geyma númerslausan bíl á innkeyrslum þ.e. ef viðkomandi bíll veldur ekki mengun eða er ekki lýti á umhverfi.
„Verkefnið er unnið í samráði við viðkomandi sveitarfélög og í samræmi við reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Fyrirhugað verklag er að límt verði aðvörunarorð á bíla og gefinn vikufrestur til þess að bregðast við með því t.d.; að eigandi fjarlægi viðkomandi bíl, óski eftir frekari rökstuðningi eða sæki um lengri frest.
Ef ekki er brugðist við aðvörun með neinum hætti, þá er gefinn frestur í viku til viðbótar og bíll eða munur fjarlægður.
Áherslan er á íbúðahverfi, með það að markmiði að bæir og þorp á Norðurlandi vestra verði snyrtileg, þannig að sómi verði af,“ segir í tilkynningu Heilbrigðiseftirlitsins.