Andrés Ingi Jónsson alþingismaður spurði heilbrigðisráðherra:
Hvaða heilbrigðisstofnanir skorti rafmagn vegna áhrifa óveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember sl. og hversu lengi? Hverjar þeirra höfðu ekki tryggt varaafl?
Í svari ráðherrans segir meðal annars:
Á Blönduósi, í Skagafirði, á Húsavík og í Fjallabyggð eru varaaflsstöðvar sem tóku við þegar rafmagn fór af.
Jón Valgeir Baldursson bæjarfulltrúi Fjallabyggðar gerir alvarlegar athugasemdir við þetta á facebook síðu sinni, en þar segir meðal annars:
Það er frekar ömurlegt að þurfa að lesa í fréttum að hlutirnir séu í lagi í heilbrigðiskerfinu okkar hérna í firðinum [Ólafsfirði] þegar þeir eru það ekki!!!
Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að það séu varaaflsstöðvar í starfsstöðvum HSN í Fjallabyggð!! Vissulega er varaaflsstöð í starfsstöðinni á Siglufirði, en hérna á heilsugæslunni í Ólafsfirði er að sjálfsögðu engin varaaflsstöð!!
Í óveðrinu í desember varð allt húsnæði Hornbrekku rafmagnslaust, þegar rafmagnslaust varð á öllu svæðinu. Á öðrum degi rafmagnsleysis fórum við 3 aðilar, einn úr björgunarsveitinni, varaslökkviliðsstjóri og rafvirki með litla rafstöð í eigu slökkviliðsins og tengdum við hringrásardælu hitakerfis (ofnakerfis) hússins, vegna þess að elliheimilið á efri hæðinni var orðið frekar kalt og ekki hægt að bjóða íbúum þess upp á þær aðstæður. Á einhverjum tímapunkti var síðan farið með framlengingarsnúrur inn í stofnunina til að hægt væri að kveikja á einhverjum tveimur eða þremur perum þar inni, ekkert í tæki og tól HSN.
Svar ráðherrans má finna í heild sinni hér.