Í fjármálaáætlun sem kynnt var í gær er tryggð fjármögnun til að ráðast í viðamiklar breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu. Fjármögnunin er hluti af heildarendurskoðun alls kerfisins sem er stærsta áherslumál Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Samkvæmt fjármálaáætlun 2024-2028 mun fjárveiting til heildarendurskoðunarinnar hækka um 500 milljónir króna árið 2024 til undirbúnings breytingunum. Ári síðar hækkar fjárveitingin um ríflega 15 milljarða króna, en þá er gert ráð fyrir að ný heildarlög í málaflokknum taki gildi. Árið 2026 er gert ráð fyrir að innleiðingu ljúki og eykst fjárveiting þá um rúman einn milljarð króna og er gert ráð fyrir að hækkunin verði þá samtals rúmlega 16 milljarðar króna.

„Ég er gríðarlega ánægður með að við höfum fjármagnað breytingar sem beðið hefur verið eftir svo árum skiptir. Umbylting örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfisins mun marka vatnaskil, þar sem aukin áhersla verður á virkni fólks og tækifæri á vinnumarkaði fyrir þau sem hafa mismikla starfsgetu. Fjárveitingin þýðir að við getum gert kerfið einfaldara, gagnsærra og réttlátara og stutt enn frekar við þau sem lökust hafa kjörin. Ég er stoltur af þessari áherslu ríkisstjórnarinnar sem sýnir að forgangsraðað er í þágu fólks á örorku og í endurhæfingu,“ segir Guðmundur Ingi.

„Næsta skref er að vinna áfram að undirbúningi og innleiðingu nýs kerfis og á haustþingi mun ég mæla fyrir frumvarpi þess efnis.“

Endurskoðunin sem nú stendur yfir á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu er þrepaskipt og hefur fyrstu áföngunum þegar verið náð með samþykkt laga um lengingu á tímabili endurhæfingarlífeyris og nær tvöföldun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega en 14 ár voru liðin síðan frítekjumarkið hafði síðast verið hækkað.

Gott að eldast

Annað áherslumál félags- og vinnumarkaðsráðherra er verkefnið Gott að eldast sem snýst um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Verkefnið er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun munu alls 700 milljónir króna renna til þeirra aðgerða í aðgerðaáætluninni sem eru á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og dreifast þær á árin 2025-2027. Markmiðið með Gott að eldast er að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi og auka möguleika þess á að búa sem lengst heima. Meginþungi aðgerðaáætlunarinnar sem ráðherra mælti fyrir á Alþingi nýlega hvílir á þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk, en einnig á nýsköpun, aukna andlega og líkamlega virkni og stórbætt upplýsingaflæði um þjónustu.

„Það er stór áfangi að fá inn fjármagn í verkefnið Gott að eldast. Sú vegferð sem við erum hér að hefja mun umbylta þjónustu við eldra fólk. Hluti af verkefninu þarf að fela í sér hugarfarsbreytingu gagnvart eldra fólki og viðurkenningu á mikilvægi þekkingar, reynslu og mannauðs sem þessi hópur samfélagsins býr yfir. Eldra fólk er svo sannarlega virði en ekki byrði,“ segir Guðmundur Ingi.

Mynd/pixabay