Hátindi 60+ nýsköpunar-og þróunarverkefni í þjónustu við íbúa Fjallabyggðar 60 ára og eldri var formlega ýtt úr vör í Tjarnarborg í gær. Um 200 manns mættu á opnunina sem tókst í alla staði mjög vel.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fluttu erindi ásamt heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni og félagsmálaráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Heilbrigðisráðuneytið og Félags-og vinnumarkaðsráðuneytið hafa átt ríkan þátt í að koma verkefninu á fót. Félagsmálaráðherra styrkti verkefnið með myndarlegum hætti og Heilbrigðisráðuneytið hefur komið að verkefninu með beinum hætti.

Hátindur  60+  er nýsköpunar- og þróunarverkefni í þjónustu við íbúa sveitarfélagsins 60 ára og eldri. Markmiðið er að velferðarþjónusta í Fjallabyggð verði nútímaleg, sjálfbær og tryggi lífsgæði. Að þjónustan verði sniðin að þörfum notenda m.a. með því að samþætta félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að því að eldra fólk geti búið lengur heima við góðar aðstæður, bæði hvað varðar öryggi og félagslega þætti, sem og að virkja þann hóp sem enn er á vinnumarkaði. 

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í þjónustu við 60+ ýtt úr vör í Fjallabyggð 

Myndir/Mikael Sigurðsson