Á safninu SKANDIAMUSEET er sýndur fjöldin allur af uppgerðum bátavélum, sem herra L. Laurin hannaði og framleiddi í Skandiaverket í Lysekil. Þetta eru flestar tveggja takta litlar bátavélar sem eru kallaðar “TÄNDKULEMOTOR” á sænsku (glóðarhausamótor á Íslensku) og gáfu þær frá sér mjög svo róandi taktfast bátavélahljóð. Dunk… dunk… dunk.. og það getur hljómað einkennilega, en fólki finnst það sjarmerandi að fá að heyra þetta gamla trillubáta hljóð og árlega streymir fólk að til að fá að sjá og heyra í þessum gömlu frægu vélum á TÄNDKULEMOTORNS DAG.


⚠️ VARÚÐ! Hér eru gamlir karlar að leika sér…

… Er það fyrsta sem ég sé, þegar aldraður vinur minn, Lars Adriansson opnar hurðina á bátavéla safninu, sem er rauninni ekki formlega opið þegar ég kom til Lysekil, seinnipart fimmtudagsins 8 maí.

Strax innan við dyrnar sér maður stóra uppgerða glóðarhausa vél og þar innan við á verkstæðisgólfinu, stendur önnur aðeins minni, sem verið er að endurgera frá grunni. Olíulyktin, verkfæri og allt umhverfið minnir mann á við erum staddir í húsinu þar sem þessar merkilegu vélar voru framleiddar. Frá grunni, frá þar síðustu aldamótum og allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Tveir aðrir eldri herramenn eru í vinnugöllum og þeir vita nákvæmlega allt, sem vert er að vita um þessar merkilegu vélar. Þessi staður er himnaríki, fyrir eftirlaunaþega með báta sögu og véla dellu.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Það er áhugamanna félagsskapurinn L. Laurin sem rekur safnið og einnig dráttarbátinn Harry , félagið var stofnað 1993 og í upphafi var einungis ætlunin að kaupa gamlan bát með Skandia mótor og hafa hann til sýnis í Lysekil.

Það sem byrjaði smátt, rétt eins og FÁUM (Félag áhugamanna um minjasafn) á Siglufirði þróaðist fljótlega í mun viðameira verkefni, þegar félagið fékk að taka yfir sjálft Verksmiðjuhús Skandiaverksins og nú standa þarna gamlar uppgerðar vélar í löngum röðum út með öllum veggjum.

Á myndunum hér fyrir ofan sjáum við sneiðmynd af afturendanum á lítilli trillu, með Skandia 13A mótor og eins og sjá má þá eru þetta frekar litlar vélar sem skila samt, eins og í þessu tilfelli 10 hestöflum. Það er of langt og tæknilega flókið að útskýra á hvaða máta þessar sögulegu vélar eru öðruvísi en aðrar dísilvélar, en óhætt er að segja að það krefst smá undirbúningsvinnu, við að fá þær í gang. Þetta er frekar einföld hönnun og þessar vélar ganga endalaust og endast von úr viti.

Hér má sjá stutt myndband sem útskýrir gangsetningar ferlið: Start och körning med en Seffle 15 hkr tändkulemotor.

Þær voru ekki einungis notaðar í bátum og á safninu eru til allskyns dæmi um aðra notkun, eins og t.d. sem dælu vél fyrir slökkviliðs vagna o.fl.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Sagan segir að L. Laurin gamli hafi stofnað lítið vélaverkstæði í Lysekil 1899 og 1903 byrjaði hann að framleiða litlar bátavélar. Það gekk upphaflega samt brösullega að selja sjómönnum á vesturströndinni þessa nýjung. Þeir vildu sumir meina að hávaðinn myndi bara fæla burtu fiskinn. L. Laurin bauð þá einum skútuskipstjóra að setja litla vél í bátinn hans, honum að kostnaðarlausu og ókeypis afnot í eitt ár og loforð fylgdi með að ef hann væri ekki ánægður myndi hann fjarlæga vélina yfir nótt.

Eftir þessa velheppnuðu tilraun, hafði L. Laurin varla undan að framleiða vélar fyrir bæði stóra og litla fiskibáta og meðalstórar fraktskútur. Þessar vélar voru á sínum tíma bæði betri og einfaldari í rekstri en t.d. gufuvélar

Skandiaveket safnið er staðsett í norður höfninni í Lysekil, nánar tiltekið við Verkstadsgatan 2, margt og mikið hefur breyst ef við kíkjum á myndirnar hér undir, en margt og mikið er sér líkt á hafnarsvæðinu. Á miðju myndinni sjáum við heilmikið safn af módel húsum og eru þetta allt kópíur af sögufrægum byggingum í Lysekil.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Í gömlu myndbandi á YouTube frá 2008, fáum við að sjá og heyra hljóðið í ýmsum gömlum vélum sem L. Laurin félagið dregur út úr safninu og stillir upp utandyra fyrir almenning.

Laugardaginn 16 ágúst, 2025 á milli kl. 10-16, eru allir velkomnir í heimsókn og gestir fá þá að sjá og heyra þetta heimsfræga dunk, dunk, dunk bátavélahljóð.

Myndband frá 2008. Mynd lánuð frá YouTube.com.

Höfundur samantektar, ljósmyndari
og stafræn endurvinnsla á ljósmynda gæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.

ATH: Sjá má margar fallegar bátamyndir o.fl. hér:

BÁTALISTAVERK OG BÁTAVÉLAHLJÓÐ. 50 MYNDIR

Myndaalbúm 1: Bátalistaverk eftir Åke Arnold Carlsson í Lysekil. 10 myndir.
Myndaalbúm 2: Hálfir bátar og skrokkar. 6 myndir.
Myndaalbúm 3: Siglfirskar bátalistaverka ljósmyndir frá Steingrími Kristins (Litaðar, áður svarthvítar gamlar bátaljósmyndir35 myndir.