Regína Steinsdóttir jafnan nefnd Gígja er fædd og uppalin í Fljótum á fyrrihluta síðustu aldar. Hún ólst upp á bænum Hring í Stíflu til níu ára aldurs og flutti þaðan á Nefstaði í sömu sveit, þaðan flutti hún til Siglufjarðar fjórtán ára að aldri. Snemma hneigðist hugur hennar til hannyrða og prjónaði hún sokka og vettlinga barn að aldri, síðan tók við saumaskapur og saumaði hún á sig kjóla og annað sem til féll.

 

Fallegt handverk

Gigja hefur ávalt haft mikinn áhuga á hefðbundinni íslenskri handavinnuhefð, saumað út, heklað, prjónað og föndrað allskonar fallega muni. Fyrir utan mikinn handavinnuáhuga hefur hún einnig ort ljóð og tónlistaráhugi hefur skipað stóran sess í lífi hennar, bæði söngur og hljóðfæraleikur á harmonikku og gítar.

 

Í dag syngur Gígja með Vorboðakórnum í Fjallabyggð, tekur virkan þátt í allskonar tómstundastarfi eldri borgara, stundar útiveru með daglegum göngutúrum og er eldhress bæði á sál og líkama.

 

Það verður gaman að sjá sýninguna

 

Hún á alls fjögur börn, átta barnabörn, sjö langömmubörn og tvö á leiðinni, öll njóta þess að fá fallegar handunnar gjafir frá Gígju sem er einmitt að undirbúa komu litlu krílanna með fallegum handunnum gjöfum.

Gígja er þessa dagana að undirbúa sýningu á verkum sínum sem haldin verður í Skálarhlíð á morgun, laugardaginn 26. janúar frá kl. 14:00 – 18:00 og eru allir hjartanlega velkomnir að njóta fallegrar handavinnu og léttra veitinga.

 

Hér má sjá glerlampa sem Gígja gerði

 

Jólatré handunnið út tjulli og gaman að sjá allt litla skrautið sem Gígja útbjó til að hafa á því

 

Jólasveina fjölskylda sem fær einnig að taka þátt í sýningunni

 

Henni er ýmislegt til lista lagt, hér má sjá Gígju lesa upp ljóð sem hún hefur ort

 

Regína Steinsdóttir hefur alltaf haft gaman af tónlist og hér er hún að spila á harmonikku. Mynd/úr einkasafni

 

Listilega vel gerðar jólagardínur. Mynd/úr einkasafni

 

Útsaumað áklæði á stól. Mynd/úr einkasafni

 

Glæsilega vel gerð handavinna. Mynd/úr einkasafni