Siglfirðingur.is greindi frá því að ekkert opinbert helgihald verður í Siglufjarðarkirkju það sem eftir lifir mánaðar. Það sem fellur niður eru tvær messur sem fyrirhugaðar voru 15. og 29. mars, annars vegar ljósamessa og hins vegar dægurlagamessa, auk barnastarfsins, sem er þá hér með lokið þennan veturinn. Ástæðan fyrir þessu er útbreiðsla COVID-19 veirunnar.

Engir eru þó sýktir á Siglufirði, en aldrei er of varlega farið þegar vágestur sem þessi er annars vegar. Þetta er með öðrum orðum eingöngu hugsað sem fyrirbyggjandi aðgerð, í ljósi aðstæðna. Staðan verður endurmetin um mánaðamót.

Fyrir þau sem erindi kunna að eiga í aðrar athafnir, s.s. skírnir, hjónavígslur og útfarir, verður handspritti komið fyrir í anddyri kirkjunnar. Jafnframt ber að forðast snertingar eins og hægt er; í tilviki útfarar sem verður núna á laugardag eru aðstandendur meðvitaðir um þetta.

Til viðbótar þessu er fólk eindregið hvatt til að kynna sér vel leiðbeiningar frá landlækni sem eru á vefsíðu hans, landlaeknir.is.