Menningarstyrkir Fjallabyggðar voru afhentir við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Tjarnarborg 6. febrúar síðastliðinn.

Fjallabyggð hefur kynnt þau verkefni sem hlutu styrki og mun Trölli.is birta fréttir af þeim verkefnum á næstunni.

Að þessu sinni kynnum við verkefnið, Fjallabyggðargrunnur – Myndasýning af bæjarbúum. Umsækjandi er Fríða Björk Gylfadóttir.

Um er að ræða myndverk þar sem unnið er með mynd af hverjum íbúa Fjallabyggðar. Hugmyndina að verkefninu fékk Fríða um það leyti sem verkefninu um Héðinsfjarðartrefilinn var að ljúka.

Það verkefni átti að tengja saman byggðakjarnana og er þetta verk framhald af sama „konsepti“ eða hugmynd að mörgu leyti, nema nú vinnur Fríða með íbúum.

Fríða ætlar að taka móti hverjum íbúa Fjallabyggðar á kaffihúsinu þar sem hún mun taka mynd af hverjum fyrir sig, háum sem lágum. Smátt og smátt verður til sá grunnu sem skapar þetta myndverk, eftir því sem fleiri íbúar skila sér til myndatöku, þeim mun skemmtilegra og stórfenglegra.

Fríða stefnir að því að vera búin að taka myndirnar 15. júlí og að verkinu verði lokið 2. október þegar 10 ár eru frá því trefillinn varð til.

Styrkupphæð 100.000 kr. –

Myndir: Fríða Gylfadóttir