Síðastliðnar tvær vikur hafa umferðareftirlitsmenn á Norðurlandi eystra verið með færanlegan hemlaprófara í notkun þar sem hemlabúnaður ökutækja var prófaður við vegaskoðun.
Umferðareftirlitið hefur eftirlit m.a. með stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, hleðslu, frágangi og merkingu farms, ökumælum, ökuritum, olíugjaldi og kílómetragjaldi, vegaskoðunum, leyfisskyldri starfsemi sem varðar fólksflutninga og farmflutninga á landi, akstri leigubíla og aksturs og hvíldartíma ökumanna og öllum brotum sem aðilar taka eftir við eftirlitsstörf.
Mikilvægur þáttur í umferðaröryggi er að koma í veg fyrir að ökutæki með vanbúna hemla séu á ferðinni og oft á tíðum er það hemla eða dekkjabúnaður sem er orsakavaldur eða samverkandi þáttur þegar slys verða.
Fjölmörg ökutæki voru hemlaprófuð við vegaskoðun og voru nokkur þeirra boðuð í skoðun vegna hemla og dekkjabúnaðar.
Frétt og mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra