Hinn sívinsæli Bangspítali kemur til Akureyrar í dag, laugardaginn 11. október!

Öllum börn­um ásamt for­eldr­um eða for­ráðamönn­um er boðið að koma með veika eða slasaða bangsa á Heilsugæsluna á Akureyri Sunnuhlíð milli klukk­an 10 og 16.

Tilgangurinn með Bangsaspítalanum er tvíþættur, annars vegar að fyr­ir­byggja hræðslu hjá börn­um við lækna og heil­brigðis­starfs­fólk og hins veg­ar að gefa lækna­nem­um á yngri árum tæki­færi til að æfa sam­skipti við börn og aðstandendur.

Heimsóknin fer þannig fram að hvert barn kemur með sinn eigin bangsa. Gott er að foreldrar eða forráðamenn sem koma með séu búnir að ræða við börnin fyrir heimsóknina um hvað amar að bangsanum, hvort hann sé til dæmis með hálsbólgu, magapest eða brotinn fót. Þegar á heilsugæsluna er komið fær barnið að innrita bangsann og að því loknu kemur bangsalæknir og vísar barninu inn á læknastofu þar sem læknirinn skoðar bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þarf á að halda.

Ekkert vandamál er of stórt eða of lítið fyrir bangsalæknana og hvetjum við alla til að taka daginn frá og kíkja í heimsókn.

Það er Lýðheilsufélag læknanema sem stendur fyrir Bangsaspítalanum.

Bangsaspítalinn 2025 Facebook

Myndir/SAk