í fyrra voru liðin 30 ár frá því að hljómsveitin Stronse var stofnuð í Laugarbakkaskóla. Hljómsveitin hefur heitið fjórum nöfnum sem eru, áður nefnt Stronse, Kæri Jón, Kuffs og í dag Kashmir. Vegna samgöngu- og samkomutakmarkanna náðist ekki að halda upp á afmælið í fyrra, á 30 ára afmælisárinu og því verður gerð heiðarleg tilraun til þess í ár.

Það var að hausti til árið 1991 sem Marinó Björnsson tónlistarmaður, málari og kennari smalaði saman 5 krakkaormum, lét þau öll hafa hljóðfæri og hljóðnema og kenndi þeim að spila og syngja lagið Wild thing. Meðlimir og hljóðfæraskipan var eftirfarandi:
Guðmundur Hólmar Jónsson gítar og söngur.
Ingibjörg Jónsdóttir hljómborð og söngur.
Sonja Karen Marinósdóttir hljómborð og söngur.
Gunnar Ægir Björnsson bassi.
Jón Bergmann Sigfússon trommur.
Í dag spilar Hinrik Þór Einarsson á trommur og Páll sigurður Björnsson á bassa.

Sum þeirra höfðu verið í tónlistarskólanum en önnur ekki. Fleiri lög voru æfð og var svo fyrsta opinbera framkoman á jólaballi Kvenfélagsins Iðju í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka.

Næsta verkefni hljómsveitarinnar voru stórtónleikar sem haldnir voru í Félagsheimilinu Hvammstanga. Þar flutti hljómsveitin lögin Smells like teen spirit og Wild thing. Þá var Ingibjörg söngvari hljómsveitarinnar og ákvað auðvitað að taka þetta alla leið, sem sagt „öskraði“ í hljóðnemann þegar hún söng Wild thing. Hugsanlega fengi þetta fína lag öðruvísi nálgun hennar í dag.

Æfingar færðust úr húsnæði grunnskólans yfir í áður nefnt Ásbyrgi en það var, má segja, annað heimili hljómsveitarmeðlima veturna 1992-1994. Eftir skóla, nánast alla virka daga var farið í Ásbyrgi og æft fram á kvöld. Veturinn 1992-1993 spilaði hljómsveitin á grímuballi og barnaþorrablóti í Víðihlíð, á balli árshátíðar grunnskólans og stórtónleikum á Hvammstanga, svipuðum og árið áður. Á þeim tónleikum var
ákveðið að spila frumsamið lag sem var að mestu samið af Guðmundi. Textann sömdu Sonja og Ingibjörg og ákváðu að hafa hann á ensku. Þáverandi enskukennari textahöfunda var Þorvarður Guðmundsson. Hann sagðist hafa verið ákaflega hreykinn og stoltur af textagerð ungra nemenda sinna, allt þar til textinn fór að hljóma kunnuglega. Í textagerðinni enduðu þær nefnilega á því að gramsa í plötusafni Marinós þar sem þær fundu plötuna Breakfast in America með Supertramp og tóku smá búta úr nokkrum lögum plötunnar. “Það var líklega viðlagið sem kom upp um okkur en það hljómaði nákvæmlega eins og viðlagið úr laginu Goodbye stranger” segir Ingibjörg og brosir.
Um þetta leiti var ákveðið að breyta nafni hljómsveitarinnar úr Stronse í Kæri Jón.

En það voru fleiri en hljómsveitin Kæri Jón sem höfðu æfinga aðstöðu í Ásbyrgi. Þar voru líka eldri strákar frá Hvammstanga.
Ingibjörg segir frá:
“Maður bar hálfgerða óttablandna virðingu fyrir þeim. Við ákváðum eitt skiptið að fela okkur uppá háalofti í Ásbyrgi og ætluðum að fylgjast með þeim á æfingu, en svo annað hvort seinkaði þeim eða æfingu var aflýst og við nenntum ekki að bíða lengur. Seinna komu þeir fram, eins og við, á stórtónleikum á Hvammstanga og þar var söngvarinn í leðurbuxum með sítt hár og ber að ofan. Þetta hafði maður ekki séð áður”.

Árið 1992 fengu þau í saxófónleikara í hljómsveitina. Það var Einar Páll Eggertsson sem blés í rörið þangað til hann og Jón Bergmann hættu í hljómsveitinni þar sem þeir voru að hefja nám í framhaldsskóla. Þá vantaði auðvitað trommuleikara og stakk Marinó upp á ungum dreng að nafni Hinrik Þór Einarsson sem hann hafði séð spila.

Síðasta vetur Ingibjargar, Sonju og Gunnars í Laugarbakkaskóla hittust þau í hljómsveitinni reglulega í Ásbyrgi og æfðu. Þá bar hljómsveitin nafnið Kuffs. Hljómsveitin var farin að sjá um undirspil söngvarakeppninnar í grunnskólanum þeirra á Laugarbakka og átti eftir að gera það næsta áratuginn. Hljómsveitin spilaði svo á grímuballi og árshátíð skólans ásamt skólaslitunum.

Þó svo að meirihluti sveitarinnar hafi svo flutt burt haustið eftir og Guðmundur og Hinrik verið einir eftir að þá héldu æfingar áfram þar sem aðrir meðlimir komu heim nærri hverja helgi. Þá var æft fyrir komandi Músíktilraunir en þar flutti hljómsveitin þrjú lög sem hétu Jónas, Hunny bunny og Stína. Gaman að segja frá því að það voru tvær hljómsveitir úr Húnaþingi vestra að keppa þetta árið eins og sjá má í blaðaúrklippunni hér að neðan.

Hljómsveitin komst ekki í úrslit en þetta er árið sem Botnleðja sigraði. Lagið Jónas var sett á lagalistann og á böllum kom það fyrir að beðið var sérstaklega um það lag.


Sumarið 1995 voru systkinin, Guðmundur og Ingibjörg með partý heima í foreldrahúsum á Ósi. Þar skyldi slá upp balli og gerðu þau sér lítið fyrir, fengu dráttarvél og vagn að láni hjá pabba þeirra, keyrðu til Laugarbakka sem er um þriggja kílómetra vegalengd, settu hljómsveitargræjurnar á vagninn og keyrðum aftur heim á Ós. Þarna var nú ekki verið að fylgja lögum og reglum þar sem Hinrik sat við trommusettið á vagninum og spilaði á meðan Guðmundur keyrði traktorinn eftir þjóðveginum. Svo var haldið ball í stofunni á Ósi.

Grímuball í Félagsheimilinu Víðihlíð 1994

Haustið 1998 bað Tónlistarfélag Vestur Húnvetninga hljómsveitina að halda tónleika á komandi páskum.  Þá var Páll Sigurður Björnsson kominn í hljómsveitina sem bassaleikari. Spilaði Páll einnig á hljómborð á þessum tónleikum þar sem Gunnar Ægir fyrrum bassaleikari spilaði nokkur lög á tónleikunum. Lögin voru öll yfirbreiðslu lög ásamt þeim lögum sem höfðu verið samin fyrir Músíktilraunir. Lögin voru flest tekin af ballprógrammi hljómsveitarinnar en ákveðið var að enda tónleikana á einhverju nýju en þó ekki frumsömdu. Fyrir valinu var partur úr tónlistarverkinu Lifun eftir Gunnar Þórðarson sem hljómsveitin átti eftir að spila í einhver skipti næstu árin.
Sumarið 1999 sá hljómsveitin um tónleika í Félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem ýmsir aðilar sungu með hljómsveitinni.  Voru nokkur af þeim lögum, ásamt öðrum, spiluð á Húnvetningakvöldi á Broadway veturinn eftir.


Fjölbrautarskólinn við Ármúla fékk hljómsveitina til að spila undir forkeppni söngvarakeppni framhaldsskólanna í húsnæði Bíóborgar við Snorrabraut og var það Sonja Karen sem vann keppnina með Final countdown. Hún lenti í 3. sæti í aðalkeppninni. Árið 2008 flaug hljómsveitin til Danmerkur og spilaði á þorrablóti hjá Íslendingafélaginu í Søndeborg. Var það mjög skemmtileg ferð svona sérstaklega þar sem fluginu seinkaði um hálfan sólarhring.


Í júlí 2013 voru haldnir magnaðir minningartónleikar í Hvammstangakirkju. Kirkjan var algjörlega fullsetin og einnig var sjónvarpað frá tónleikunum niður í sal Grunnskólans á Hvammstanga ásamt því að tónleikarnir voru sendir út á útvarpsstöðinni Útvarp Hvammstangi og á netinu. Tónleikarnir hétu 40/40 og þar var minnst fólksins sem hefur látist í sveitarfélaginu, fyrir fertugsaldurinn á seinustu 40 árum, þá árið 2013. Hljómsveitin, sem áður hét Kæri Jón en heitir á þessum tónleikum og enn þann dag í dag Kashmir, flutti þá meðal annars lag eftir Guðmund Hólmar gítarleikara sem hann samdi um bróður sinn og Ingibjargar. Guðfinna systir þeirra kveikti á kerti til minningar um látinn bróður þeirra.

40/40 tónleikar í Hvammstangakirkju 2013


Ingibjörg segir frá:
“Ég man þegar að ég stóð upp frá píanóinu eftir spilunina og horfði fram í kirkjuna hvað það var greinilegt að lagið og textinn hafði snert marga í kirkjunni. Ég settist aftur niður í kirkjunni en strákarnir fóru “baksviðs” þar sem flytjendur héldu til og fór þar fram stórt hópfaðmlag hjá þeim strákunum ásamt tveimur vinkonum þeirra enda var þetta mjög tilfinningaþrungin stund. Eins var með öll hin lögin sem flutt voru á þessum tónleikum.”

Síðast kom hljómsveitin saman árið 2014 þegar hún spilaði á þorrablóti á Eskifirði og Reyðarfirði. Ef barneignir hljómsveitarmeðlima hefðu ekki spilað inní árið eftir hefði hljómsveitin spilað meira næstu árin.

Á árunum 1999-2008 spilaði hljómsveitin reglulega á böllum víða um land og í tilefni 30 ára afmælis sveitarinnar munu þau halda upp á það með réttarballi í Félagsheimilinu Ásbyrgi 3. september næstkomandi.
En eins og áður hefur komið fram var Ásbyrgi annað heimili hljómsveitarmeðlima hér á árum áður þegar hljómsveitin var að mótast.