Á dögunum afhenti Menningarsjóður Kaupfélags Skagfirðinga Dagdvöl aldraðra höfðinglega gjöf. Um er að ræða búnað í heilbrigðistækni svo kallaðan Motiview búnað sem samanstendur af sérstöku hjóli, tölvubúnaði og sjónvörpum. Hjólið er tengt við tölvu og skjá og í gegnum sérstök forrit er hægt að hjóla svo að segja um allan heim og njóta náttúru og mannlífs sem birtist á skjánum um leið og hjólað er. Hægt er að hafa hjólið eingöngu fótstigið en einnig er hægt að hjóla bara með höndunum eða hvort tveggja.

Búnaður þessi er til þess ætlaður að hvetja eldra fólk og fólk með heilabilun til aukinnar virkni bæði líkamlega og andlega. Mælingar sem gerðar hafa verið á gagnsemi búnaðarins fyrir einstaklinga sýna ótvíræðan árangur fyrir vöðvastyrk, jafnvægi og stoðkerfi. Aukin hreyfing dregur einnig úr þunglyndi, svefnvandamálum og öðrum kvillum.

Fyrir utan að vera tækni sem hvetur til hreyfingar hvetur búnaðurinn einnig til félagslegrar samveru og andlegrar örvunar og eykur þannig einnig lífsgæði fólks.

Fyrst um sinn munu starfsmenn bjóða gestum Dagdvalarinnar upp á þjálfun á hjólinu en einnig er ætlunin að bjóða öðrum aðgang að búnaðinum þegar fram í sækir.

Ljóst er að búnaður þessi er mikið framfaraskref í þjónustu Dagdvalar við gesti hennar og býður upp á mikla möguleika fyrir þá íbúa Skagafjarðar sem á þurfa að halda.

Í máli Stefaníu Sifjar Traustadóttur, forstöðumanns Stuðnings- og stoðþjónustu Skagafjarðar, við móttöku gjafarinnar kom fram að miklar framfarir ættu sér nú stað í þróun í velferðartækni sem er til þess fallin að efla líkamlega og andlega færni eldra fólks. Tækni þessi miðar að því að efla heilsu og almenn lífsgæði og um leið auka möguleika fólks á að búa lengur í heimahúsum. Hún þakkaði Menningarsjóðnum vel fyrir þessa mikilvægu gjöf og sagði hana styðja afar vel við starfsemi Dagdvalarinnar.

Það kom í hlut Ásbjargar Jóhannsdóttur, sem hefur verið gestur Dagdvalarinnar um langt árabil að vígja búnaðinn. Að afhendingu lokinni var boðið upp á kaffi og kökur.

Myndir/af vefsíðu Skagafjarðar