Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) gáfu rannsóknarstofu lífeðlisfræðideildar SAk á dögunum nýtt öndunarmælingartæki.
Nýja tækið (Vintus One) gefur möguleika á mismunandi tegundum öndunarmælinga, s.s. fráblástursmælingu, loftdreifiprófi, mælingu á rúmmáli lungna og sveiflumælingu.
„Með nýja tækinu getum við betur samræmt lungnarannsóknir á SAk við þær sem eru gerðar á Landspítala og bætt samstarf við sérfræðinga sem eru staðsettir þar. Með tilkomu tækisins getum við aukið þjónustu við einstaklinga á upptökusvæði SAk sem annars þyrftu að fara suður í rannsóknir. Lungnasérfræðingar sem eru staðsettir í Reykjavík geta nú fengið rannsóknir gerðar hér en það gefur jafnvel möguleika á auknu fjareftirliti þegar það hentar,“ segir Jónína Þuríður Jóhannsdóttir, yfirlífeindafræðingur á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði á SAk.
Mynd/Skapti Hallgrímsson.