Áætlað er að árið 2017 hafi 8,1% fólks á aldrinum 16-66 ára fengið greiddan örorkulífeyri sem jafngildir um 17.900 manns. Af þeim voru um 12.400 utan vinnumarkaðar, eða 69,4%, 28,5% voru starfandi og um 400 manns atvinnulausir, eða 2,1%. Atvinnuþátttaka (starfandi og atvinnulausir) örorkulífeyrisþega árið 2017 var því 30,6%.

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti upplýsingar um stöðu örorkulífeyrisþega sem unnar eru úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og skattgögnum.

Þegar staða örorkulífeyrisþega á vinnumarkaði er skoðuð nánar má sjá að af þeim 12.400 sem voru utan vinnumarkaðar, voru 20,8% tilbúnir að vinna en ekki í leit að vinnu en aðeins 0,6% í leit að vinnu en ekki tilbúnir að vinna innan tveggja vikna.

Af þeim sem fá greiddan örorkulífeyri voru 2,1% skilgreindir sem atvinnulausir. Þar sem hlutfall atvinnuleysis er reiknað á grundvelli allra á vinnumarkaði, var hlutfall atvinnuleysis á meðal þeirra nokkuð hærra eða 6,9%.

Starfandi örorkulífeyrisþegar voru að jafnaði 5.100 árið 2017. Af þeim töldust 62,4% vera í hlutastarfi og 37,6% í fullu starfi.

Árið 2017 sögðust um 8.900, eða 4,0%, vera öryrkjar eða fatlaðir þegar beðið var um eigið mat á stöðu á vinnumarkaði í vinnumarkaðsrannsókn. Af þeim fengu um 8.400 (94,7%) greiddan örorkulífeyri samkvæmt skattgögnum. Flestir örorkulífeyrisþegar skilgreina sig sem öryrkja eða fatlaða, eða 47,0%. Næst flestir skilgreina sig sem starfandi, eða 23,1% örorkulífeyrisþega. Þriðji stærsti hópurinn skilgreinir sig sem veikan eða tímabundið ófæran til vinnu, eða 18,3%.

Um gögnin
Tölur um fjölda örorkulífeyrisþega eru unnar á grundvelli skattgagna, aðrar tölur koma úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Fengið af vefsíðu Hagstofunnar, en þar má einnig finna meira talnaefni.