Íslandsmeistaramótið í hrútadómum var haldið í tuttugasta skipti um síðustu helgi. Þar fór Jón Stefánsson frá Broddanesi á Ströndum með sigur af hólmi.
Samtals 63 tóku þátt í hrútaþuklinu, en keppt var bæði í flokki vanra og óvanra hrútadómara. Eins og áður segir, er Jón Stefánsson nýkrýndur Íslandsmeistari í hrútadómum og er þetta í fyrsta skipti sem hann sigrar. Í öðru sæti var Elvar Stefánsson frá Bolungarvík, sem var Íslandsmeistari árið 2010. Í þriðja sæti var Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Gunnar Steingrímsson frá Stóra-Holti.
Í flokki óvanra vann Fanney Gunnarsdóttir, frá Stóra- Holti. Hún á hæfileikana ekki langt að sækja, enda hreppti faðir hennar þriðja sætið í flokki vanra. Í öðru sæti var Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir á Kollsá og að lokum var Kormákur Elí Daníelsson frá Hólmavík í þriðja sæti.
Í samtali við Bændablaðið, segist Jón Stefánsson þakka reynslu sem hann öðlaðist við ómskoðun lamba til fjölda ára. Þar var hann í miklu samneyti við ráðunauta, sem kenndu honum hvernig ætti að stiga hrúta. Jón, sem er 75 ára, segist enn geyma þessa þekkingu í höfðinu og höndunum.
„Þú þarft að gefa einkunn fyrir haus, háls, herðar, bringu útlegur, bak, malir, læri, samræmi, ull og fætur. Þú þarft að vinna þetta í höndunum og vita hvernig kindin á að vera,“ segir Jón.
Reyndustu ráðunautar landsins voru búnir að gefa fjórum hrútum einkunn fyrirfram og snérist keppnin um að gefa stig sem næst dómum ráðunautanna. „Það hafa aldrei verið svona jafnir og góðir hrútar í öll þau ár sem ég hef keppt. Þetta voru svakalega flottir hrútar,“ segir Jón, en þeir voru fengnir frá Miðdalsgröf.
Heimild: Bændablaðið
Höfundur: Ástvaldur Lárusson
Mynd/Sauðfjársetrið á Ströndum