Birgitta Ósk Pétursdóttir sem búsett er á Kanaríeyjum sendi þessa hugleiðingu í útgöngubanninu.

Birgitta á og rekur fyrirtækið NORDICWAY REAL ESTATE á Kanarí, og aðstoðar einnig Íslendinga á Kanaríeyjum við að rata um krókaleiðir hinna ýmsu kerfa, t.d. hjá opinberum stofnunum, bönkum o.fl.

Birgitta Ósk Pétursdóttir

Birgitta skrifar:

Ég veit ég er ung, en lífið hefur kennt mér svo margt í gegnum þessi ár, svo margt að stundum reikar hugurinn minn í fortíðina þar sem ég týnist í góðan tíma og síðan rís ég aftur upp frá dauðanum og fer aftur í núið.

Já það eru margir steinar í bakpokanum mínum, steinar sem ég stundum tek úr pokanum og skoða vel, umhirðu þeirra, lag og stærð og set aftur í pokann og bíð eftir rétta tímanum til að geta tekið þá úr pokanum og aldrei sett þá aftur í hann. Ég gef mér alltaf tíma og þegar ég er tilbúin, tek ég einn stein í einu, skoða hann í seinasta skiptið, síðan hendi ég honum á stéttina og sé hann brotna í þúsund mola, steinn sem ég mun aldrei aftur leyfa að snerta bakpokann minn, ég létti því á þyngslunum á bakinu mínu og brosi í hvert skipti með miklum létti.

Ég sé mig inní völundarhúsi með þennan bakpoka, á lífsleiðinni ferðu í gegnum allskonar prufur, lífið gefur og tekur og opnar og lokar dyrum. Völundarhúsið er þitt líf, þú átt eftir að finna verðmæti á leiðinni, líka falskt gull, og til að komast að því hvort það sem þú fannst er í raun og veru verðmæti, þarftu að fara í lítið ferðalag. Völundarhúsið snýst ekki um að finna leiðina út, heldur að njóta og velja leiðina, leiðina í lífinu sem þú vilt fyrir þig. Þú munt þurfa að taka margar beygjur, stundum þarftu að snúa við og fara í hina áttina, það munu koma bjartar og dimmar stundir, en þetta er svo fallegt, því lærdómurinn er svo mikill, þú kynnist tilfinningum þínum sem læðast um líkamann þinn, þú lærir hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki, þú lærir að njóta, kynnist gersemum og lærir að stundum skín falskt gull meira en alvöru gull en hefur ekkert verðmæti. 

Auðvitað skiptir máli hvort þú beygir til hægri eða vinstri í völundarhúsinu, eða hvort þú ákveður að halda áfram þann veg sem þú telur vera réttur, eða hvort þú ákveður að snúa við og fara annan veg. Hver er rétta leiðin? Enginn getur sagt þér það en það er eitt sem ég get staðfest; lífið mun sýna þér leiðina og það er ekki hægt að sleppa við lærdóminn sem lífið þarf að kenna þér til að leiða þig að réttri braut. Það getur enginn sloppið við týpísku kennslustundirnar þar sem þú lærir að lífið er upp og niður og þú hefur enga stjórn á því, en þú hefur samt sem áður stjórn á þínum eigin huga og innri heimi hvernig þú getur litið á lífið og aðstæður, einn daginn muntu frá að lifa lífinu eins og drottning en annan daginn færðu reynsluna líka að vera hirðfíflið, manneskjur munu koma og fara inní líf þitt, sumir gefa þér reynslu og aðrir eru til að vera, og að þótt manneskja sé með sama blóð og þú, þýðir það ekki endilega að hún sé fjölskylda sem mun vilja þér það besta. Það er svo margt sem lífið sjálft getur bara kennt þér, enginn annar. 

Ég hugsa alltaf þegar ég þarf að taka stórar ákvarðanir sem að geta breytt lífi mínu á góðan eða „slæman veg“ og eru því margar umvafðar hræðslu: „Hvernig mun ég horfa á líf mitt þegar ég sit í stólnum mínum 80 ára“? Því þá er ég komin á þann aldur þar sem allt sem þú átt eftir eru minningar og það sem þú ert búin að uppskera í lífinu. Ég hugsa: hvað vil ég geta sagt ömmubörnunum mínum þegar þau gapa á mig með galopinn munninn eftir að hafa talið allar hrukkurnar mínar. Ég vil geta sagt þeim að lífið getur verið dans á rósum og stundum getur þú stungið þig á þyrnunum, ég vil láta þau vita að það kemur alltaf logn á eftir storminum, ég vil minna þau á að berjast fyrir því sem þeim finnst rétt og fylgja tilfinningum sínum, vegna þess að stundum eru hugurinn og hjartað ekki sammála. Ég vil geta sagt þeim að orð meina ekki neitt ef þau tengjast ekki gjörðum, ég vil geta sagt þeim að ást er ekki afbrýðisöm því elskan í lífi þínu á að berjast fyrir hamingju þinni þótt stundum sé það ekki fyrir hans besta hag. Ég vil geta sagt þeim að ef þú berst ekki fyrir þinni eigin hamingju mun enginn annar gera það fyrir þig og ef þú byggir og berst ekki fyrir því sem þú vilt úr lífinu, endar þú með að byggja upp líf sem aðrir hafa búið til fyrir þig. T.d mamma þín og pabbi sem vildu að þú yrðir sálfræðingur, eða vinur þinn sem vildi að þú lærðir með honum tæknifræði. 

Þetta kemur allt niður á einum punkti, þegar þú horfir yfir lífið þitt þar sem þú situr í stólnum þínum 80 ára, og horfir á ákvarðanirnar og vegina sem þú tókst í þínu eigin völundarhúsi, hvaða sögu viltu segja? Ertu ánægð með söguna sem þú ert að byggja upp í dag, eitthvað til að segja ömmubörnunum, eða frekar til að segja við sjálfa þig í spegilinn þegar enginn er í kringum þig? Þú hefur enn tíma til að snúa við og taka annan veg í völundarhúsinu ef þér líkar ekki við það sem þú sérð núna þegar þú setur þig í stólinn 80 ára að aldri. Hvernig líst þér á lífs listaverkið þitt? 

Þetta er það sem ég geri, þegar ég stoppa og hugsa; er ég á réttum stað? Er þetta það sem ég vil? Þú skrifar bókina þína sjálfur, völundarhúsið er þitt, stundum þarftu að traðka áfram og berjast til að fara veginn sem þú vilt fara og stundum þarftu að setja sverðið niður og halda aðra leið. 

Þú hefur enn val, þetta líf er þitt og er í þínum höndum.

Birgitta Ósk Pétursdóttir.

Birgitta Ósk