Þetta hús birtist skyndilega þarna á Ásnum fyrir handan fjörð og er svolítið einkennilegt í útliti og snýr ekki beint í austur/vestur eins og önnur hús sem maður sér þarna þegar maður skreppur “yfrum.”

Maður þarf að fara nálægt þessu fallega húsi til þess að sjá formið á því og þegar nær dregur sér maður líka að þarna er bæjarins besta útsýni yfir fjörðinn fagra, það eru gluggar í allar áttir……maður sér Hólshyrnuna í nærmynd skipta um skýja og sólbirtukjóla, skógræktin og nýr glæsilegur golfvöllur blasir við fyrir neðan Skarðsdalinn og síðan sér maður allan bæinn og alla leið út á Siglunes.

Kristján Hauksson og Erla Björnsdóttir eru bæði fædd og uppalin hér á Sigló og þau byggðu þetta dásamlega fallega hús og þegar Kristján stendur á pallinum sunnan við húsið segir hann: “og svo get ég líka skálað við og vinkað mömmu minni henni Gunnu Finna sem liggur hér í nýja kirkjugarðinum rétt hjá.”

Erla býður mér inn í kaffi og góðgæti og bætir við þegar ég stend undrandi yfir stærðinni og öllu útsýninu:

” Hugmyndin að þessu húsi er lánuð frá Svíþjóð og svo aðlagað að okkar hugmyndum og reynslu eftir að hafa byggt 5-6 sumarhús áður”

Það er hátt til lofts, stórir gluggar í allar áttir og það er hægt að ganga út í náttúruna úr öllum herbergjum, meira að segja úr baðherberginu……… Já æfingin skapar meistarann og þetta er þeirra meistaraverk aðlagað að löngun til að eiga góðar stundir í firðinum fagra og ég held að ég láti bara ljósmyndirnar tala sínu máli.

Þetta er stórkostlegt hús og frábærlega staðsett.

 

Séð í gegnum húsið sunnan frá.

 

Kristján og Erla við nýbyggðan glerskála á pallinum sunnan við húsið.

 

Erla við eldhúsgluggan. Kristján segir að þau “rífist” stundum um hver eigi að fá að standa þarna við gluggan og vaska upp.

 

Þrátt fyrir að þessi samheldnu hjón sjái þennan fallega fjörð úr öllum áttum daglega þá eru falleg Siglfirsk listaverk þarna á öllum veggjum.

 

Og að lokum, séð út fjörðinn, gerist ekki fallegra.

Takk fyrir mig og kær kveðja.
Nonni Björgvins