Kyrrahafið er stærsta úthaf jarðar, alls 181 milljón ferkílómetrar, sem er stærra en yfirborð alls landmassa jarðarinnar. Meðaldýpt Kyrrahafsins er 3.940 metrar og þar er að finna dýpstu hafála jarðar, til að mynda Mariana-gjána sem nær 11.034 metra undir yfirborði sjávar.
Þar er einnig að finna hæsta fjall jarðar, ef mælt er frá fjallsrótum upp á fjallstopp, Mauna Kea.Fjölmörg hafsvæði liggja að þessu mikla úthafi, sem dæmi má nefna Okotskhaf, Beringshaf og Japanshaf. Þau eru á tempruðum svæðum og ber fána þeirra þess vitni.
Hitabeltishafsvæði eins og Suður-Kínahaf, Austur-Kínahaf, Javahaf, Arafurahaf og Kóralhaf hafa gríðarlega tegundaauðuga fánu. Pólsjór syðst í Kyrrahafi við Suðurskautslandið er svo með allt aðra fánu.
Talið er að rúmmál vatnsins sem er í Kyrrahafinu sé um 714 milljón rúmkílómetrar og hafið hefur því mikil áhrif á veðurfar jarðar. Dýralíf Kyrrahafs er stórkostlega fjölbreytt vegna þessarar stærðar og mismunandi aðstæðna hafsins. Af ellefu tegundum reyðarhvala (Balaenopteridae) sem finnast í heimshöfunum halda níu þeirra til í Kyrrahafi og ferðast á milli kaldra svæða og hlýrra yfir árið.
Kyrrahafinu hafa fundist um 6.000 tegundir lindýra, 800 tegundir skrápdýra og jafnvel allt að 10.000 tegundir fiska, þar af 1.000 tegundir brjóskfiska(háfiskar og skötur). Sum svæði í Kyrrahafinu hafa afar mikla fæðuframleiðni en önnur afar litla og eru nánast eyðimerkur, en það á sér í lagi við um miðsvæði Kyrrahafsins.Það er vart hægt að segja að ein tegund frekar en önnur sé einkennandi fyrir þetta gríðarstóra svæði sem Kyrrahafið spannar. Sæskjaldbökur og háfiskar eru þó einkennandi fyrir hitabeltissvæðin en þar finnst stærsti fiskur jarðar, hvalháfurinn (Rhincodon typus). Þessi rólyndisskepna syndir meðal annars í grunnsævinu við Filippseyjar og Papúa Nýju-Gíneu og síar sjóinn af svifi sem urmull er af á þessum svæðum.
Í norðanverðu Kyrrahafinu gengur kyrrahafslaxinn til sjávar og heldur þar til en gengur svo í árnar í Norður-Ameríku og austanverðu Rússlandi. Þó Okotskhaf teljist ekki beint til Kyrrahafs þá er það gríðarlega frjósamt hafsvæði og hefur verið dýrmætasta veiðisvæði hins mikla fiskveiðiflota Rússlands. Þar veiðast meðal annars þorskur og ufsi í gríðarlegu magni. Uppsjávarfiskar leika mikilvægt hlutverki í fæðuvef Kyrrahafsins líkt og í Atlantshafi. Fjölmargar tegundir þeirra finnast víða um hafið, svo sem sardínur og ansjósur, en í norðanverðu Kyrrahafi er kyrrahafssíldin (Clupea pallasii) mikilvæg tegund í fæðuvef svæðisins og ansjósan (Engraulis ringens) er meðal mest veiddu fiskitegunda í heiminum, heildarveiðin getur farið yfir 10 milljón tonn á ári.Einstakt dýralíf er í kringum eyjar og rif við miðbaug í Kyrrahafi, til dæmis við Míkrónesíu og Fiji-eyjar. Víða á þeim svæðum, sérstaklega við Kóralrifið mikla undan austurströnd Ástralíu, er urmull af hlýsjávarfisktegundum, sæskjaldbökum, kóraldýrum og öðrum sjávarhryggleysingjum.Myndir:
- Kyrrahafið: Wikimedia Commons. (Sótt 9.7.2018).
- Hvalháfur: Pixabay. (Sótt 9.7.2018).