Hr. Eydís ásamt Ernu Hrönn komu með nýja ´80s ábreiðu í gær. Lagið er smellurinn Listen To Your Heart með sænska tvíeykinu Roxette.

Platan kom fyrst út í Svíþjóð 1988 og varð strax mjög vinsæl í heimalandinu, en utan Svíþjóðar stóðu vinsældir á sér. Bandarískum plötufyrirtækjum var boðin platan, en þau höfðu enga trú á Roxette og höfnuðu því plötunni. Það vildi hins vegar þannig til að bandarískur skiptinemi, Dean Cushman, sem hafði verið í Svíþjóð tók með sér plötuna heim til Bandaríkjanna eftir dvölina. Dean þessi kom plötunni á háskólaútvarp í heimaborg sinni og þá fóru hjólin heldur betur að snúast. Lögin slógu í gegn í útvarpinu og fór hver útvarpstöðin á fætur annarri að spila Roxette. Á endanum gátu útgáfufyrirtæki vestanhafs auðvitað ekki streist á móti og Roxette komust á samning og slógu í gegn um allan heim!

Skemmtileg staðreynd: Platan Look Sharp! var tekin upp í EMI studios í Stokkhólmi, sem er sögufrægt hljóðver í Svíþjóð. Það vill svo skemmtilega til að á Svíþjóðarárum Örlygs Smára söngvara Hr. Eydís heimsótti hann hljóðverið oft í þeim tilgangi að semja lög með samstarfsfólk sínu sem hafði þar smá aðstöðu. Lag sem fæddist í hljóðverinu var t.d. Allt fyrir ástina með Páli Óskari. Ætli megi ekki segja að eitthvað „magic“ fylgi því að skapa tónlist þarna?

„Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði fyrst í Roxette, ég kannaðist svo vel við karlröddina. Ég hafði sem barn alist upp í Svíþjóð og á þeim tíma var aðal hljómsveitin Gyllene tider og maður kunni öll lögin þeirra á sænsku. Þetta var auðvitað fyrir tíma Internetsins og það leið langur tími þar til ég fékk það staðfest að söngvarinn í Roxette var sá hinn sami og í Gyllene tider…..Per Gessle. Mér þótti þetta auðvitað stórskemmtilegt og drekkti mér í um tíma í Roxette, las svo síðar meir sögu hljómsveitarinnar sem var merkileg. Það vita það til dæmis ekki margir ,utan heimalands Roxette, að lagið It Must Have Been Love var upphaflega jólalag sem kom út í Svíþjóð.“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við, „mig langar til Svíþjóðar í sumar, sænska sumarið er æðislegt“

Hlekkur á nýjasta 80´s lagið: https://youtu.be/8pZ_9AmG354

Rás hljómsveitarinnar á Youtube: https://www.youtube.com/@eydisband


Aðsent