Á 968. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra var lögð fram eftirfarandi bókun:
„Eina bankaútibúið í Húnaþingi vestra, sem telur um 1.200 íbúa, lendir enn og aftur undir niðurskurðarhnífi Landsbankans ásamt 11 öðrum útibúum víðsvegar um landið. Byggðarráð Húnaþings vestra mótmælir harðlega ákvörðun stjórnenda ríkisbankans Landsbankans hf. um að segja upp einu og hálfu stöðugildi útibús bankans á Hvammstanga þann 28. maí sl. auk þess að ráða ekki í 100% stöðugildi sem losnaði um síðustu mánaðarmót þegar starfsmaður lét af störfum fyrir aldurs sakir. Sveitarstjórn Húnaþings vestra mótmælti síðast harðlega ákvörðunum um uppsagnir í útibúi Landsbankans á Hvammstanga í apríl 2013 og enn heldur yfirstjórn Landsbankans áfram í niðurskurði sínum.
Frá árinu 2018 áformar bankinn að reka útibúið á 2,5 stöðugildum í stað 5 líkt og þau voru í upphafi árs 2018. Störf þessi eru samfélaginu gríðarlega mikilvæg og ljóst er að starfsfólkið sem við bankann starfaði, með viðeigandi sérhæfingu í þágu bankans, hleypur ekki í sambærileg störf nema að flytjast búferlum. Frá árinu 2013 hefur stöðugildum Landsbankans hér í Húnaþingi vestra fækkað úr 10 í 2,5. Til samanburðar má benda á að uppsögn þessara stöðugilda frá árinu 2013 jafngildi uppsögn 1.400 starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er áfall sem svona lítil samfélög eins og Húnaþing vestra mega illa við.
Uppsveifla er í gangi í Húnaþingi vestra og hefur sjaldan verið eins mikið að gera við sérhæfða bankaþjónustu s.s. lánaumsóknir, umsóknir um greiðslumat og endurfjármögnun. Mikilvægt er að geta áfram sótt þessa þjónustu í heimabyggð á sama opnunartíma og aðrir viðskiptavinir Landsbankans, svo alls jafnræðis sé gætt. Ljóst er að fullyrðing bankans skv. fréttatilkynningu um að „viðskiptavinir ættu ekki að verða varir við miklar breytingar á þjónustu“ sýnir mikið skilningsleysi á þeim aðstæðum og veruleika sem íbúar í Húnaþingi vestra búa við.
Umrædd ákvörðun stjórnenda Landsbankans hf. veldur sérstökum vonbrigðum þegar horft er til þess að íslenska ríkið er eigandi bankans og þeirrar ímyndarstefnu sem Landsbankinn hf. hefur gefið út um „Samfélagslega ábyrgð“. Það er skoðun byggðarráðs Húnaþings vestra að í ljósi þessa hefði bæði verið efni og ástæður til að huga að frekari uppbyggingu verkefna bankans í Húnaþingi vestra með því öfluga starfsfólki sem þar er.
Hætt er við að þau skilaboð sem Landsbankinn hf. gefur með uppsögnum þessum leiði til enn frekari fækkunar starfa á landsbyggðinni, lakari þjónustu og þess að staðbundin þekking og skilningur á ólíkum þörfum einstaklinga og atvinnulífs vítt og breitt um landið glatist ef hina eiginlegu fjármálaþjónustu á einungis að veita frá höfuðborgarsvæðinu. Vandséð er hvernig slík stefna geti samræmst útgefinni byggðastefnu stjórnvalda þ.e. eiganda Landsbankans hf.
Byggðarráð Húnaþings vestra hvetur stjórnendur Landsbankans hf. til að endurskoða ákvörðun sína með það í huga að efla útibúið á Hvammstanga í stað þess að veikja það og að horfa til þeirrar miklu uppbyggingar og þarfar á staðbundinni fjármálaþjónustu sem nú er til staðar í Húnaþingi vestra.
Byggðarráð óskar jafnframt eftir fundi með stjórnendum Landsbankans hið fyrsta.”
Mynd: Birgir Karlsson
Frétt fengin af vef: Húnaþings vestra