Alþjóðlega brúðulistahátíðin á Hvammstanga, HIP Fest (Hvammstangi International Puppetry Festival) fer fram í þriðja sinn dagana 7.-9. október næstkomandi. Hátíðin nýtur sívaxandi vinsælda, enda afbragðskostur að njóta menningarlegs helgarfrís með fjölskyldu og vinum í rétt rúmlega tveggja tíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Það er Greta Clough – listrænn stjórnandi Handbendis brúðuleikhúss, núverandi Eyrarrósarhafa – sem ber hitann og þungann af skipulagi hátíðarinnar og móttöku þeirra erlendu listamanna sem til landsins koma sérstaklega til að sýna á Hvammstanga. Aðspurð segir hún aðdráttarafl Íslands vera afar hjálplegt við að bóka listamennina, enda eru á hátíðinni listamenn í allra fremsta flokki á heimsvísu sem alla jafnan koma ekki á jafn litlar hátíðar og þessa, en þiggja boðið og nýta tækifærið til að kynnast landi og þjóð í leiðinni.

Meðal sýninga á hátíðinni má nefna Pappírsleikhús en sú sýning kemur frá Spáni og er sprellfyndin sirkussýning með blöðrum, pappír og viftu fyrir alla fjölskylduna. Frá Bretlandi kemur sýningin Leirtími, en það er þátttökuverk fyrir yngstu áhorfendurna, stútfullt af breskum húmor eins og við þekkjum hann bestan – en börnin fá að stjórna söguþræði verksins og ákveða hvaða persónur verða búnar til úr leirnum, í lokin fá svo börnin að leira eins og þeim lystir – kannski betra að vera ekki í allra fínustu fötunum á þessari sýningu! Fyrir fullorðna er það svo meistaraverkið Snara frá Grikklandi sem stendur upp úr, verk sem sýnir það og sannar að brúðuleikhús er hreint alls ekki bara fyrir börn!

Dagskrá hátíðarinnar má skoða á heimasíðu hennar thehipfest.com og miðasala er á tix.is