Kæri íbúi Fjallabyggðar, núna komandi laugardag 14. apríl verður íbúakosning um nýja Fræðslustefnu Fjallbyggðar.
Einn íbúi í Ólafsfirði sem jafnframt er á lista annars af þeim lista sem komnir eru fram til sveitastjórnarkosninga 2018 spurði mig af hverju ekkert hefði komið frá mér varðandi fræðslustefnuna núna aðdraganda þessarar íbúakosningar, hann sagði mér að hann hefði heyrt fólk tala um að það furðaði sig á því hvers vegna ekkert heyrðist frá mér, en ég verð að fá að segja það að þetta er eini aðilinn sem ég man eftir að hafi nefnt þetta við mig.
Svarið mitt er að það er vegna þess að ég tel það ekki vera mitt hlutverk að segja fólki hvað það á að merkja X við í kjörklefanum á laugardaginn.
Í stefnuskrá Framsóknarfélags Fjallabyggðar 2014 segir „Að skoðað verði með hagsmuni barna í huga hvort samkennsla árganga sé skynsamleg.“
Í grein sem birtist í Bæjarblaðinu sem Framsóknarfélag Fjallabyggðar gaf út í aðdraganda kosninganna 2014 segir.
„Ef slíkar hugmyndir koma til tals á komandi kjörtímabili, þá er alveg ljóst að slíkt verður ekki gert án samráðs við foreldra og kennara.
Þetta er akkúrat það íbúalýðræði sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað, að ákvarðanir skulu teknar í samráði og samvinnu við íbúa.“
Ég hef barist og unnið í þessum málum samkvæmt minni sannfæringu byggða á því hvernig ég vil sjá fræðslustefnuna, skólaumhverfið og fjölskyldumhverfið byggt á. Einnig hef ég haft það sterklega að leiðarljósi að íbúalýðræði sé virt og unnið samkvæmt því og hlustað á raddir í samfélaginu.
Ég sé mörg góð tækifæri í nýju fræðslustefnunni, en einnig finnst mér vanta í hana ákveðin atriði og hefði viljað sjá hana fara aftur niður í nefnd til frekari vinnslu, ég hefði þá allavega að lágmarki fengið þá umsögn frá nefndinni að ég væri að feta einhverja leið sem ekki samræmdist fræðslustefnu sveitarfélags. Ég hefði viljað sjá fræðslustefnuna unna og afgreidda í góðri sátt við samfélagið okkar.
Ég hvet alla íbúa Fjallabyggðar til að mæta og greiða atkvæði varðandi þetta stóra og mikilvæga mál í samfélaginu okkar, kjósa samkvæmt eigin sannfæringu á því hvernig ykkur finnst þetta mál koma best út fyrir sveitarfélagið Fjallabyggð og íbúa þess, bæði unga sem aldna, þetta mál varðar okkur öll. Þessi kosning ætti að vera skýr skilaboð og stefnumótandi í vinnu fyrir þá aðila sem sýna áhuga á að fá umboð til að stýra bæjarfélaginu okkar í framtíðinni.
Með óskir um góða helgi og að við brosum hvert framan í annað og í sýnum hvert öðru vegsemd og virðingu.
Jón Valgeir Baldursson
Oddviti Framsóknarfélags Fjallabyggðar
Bæjarfulltrúi í minnihluta Fjallabyggðar
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir