Í dag er áttundi dagur desembermánaðar

Það þýðir að í dag er dánardægur John heitins Lennon sem þýðir að hin upplýsandi friðarsúla í Viðey mun taka sér venjubundið lýsingarhlé, en vakna aftur til ljóssins á gamlársdag og lýsa fram á þrettándann og í eina viku um jafndægur að vori. Það var svolítið kaldranalegt að í síðasta viðtalinu sem tekið var við Lennon gagnrýndi hann m.a. aðdáendur poppstjarna sem vildu helst hafa goðin sín dauð eins og Sid Vicious og Jim Morrison. Þess konar poppgoð sagðist hann ekki hafa nokkurn áhuga á að verða.

Ljósmynd Fréttablaðið/bg

Í dag er líka fæðingardagur Rabba trommara sem hefði orðið 66 ára hefði hann lifað. Ég man vel eftir Rabba að vestan frá þeim tíma sem ég bjó þar um stutt skeið og stundaði böllin grimmt bæði úti í Hnífsdal og Alþýðuhúsinu á Ísafirði.

Ég kynntist honum einnig lítillega eftir að hann hóf rekstur Hljóðhamars við Leifsgötuna. Á tonlist.is er heilmikill fróðleikur um tónlistarferil Rabba sem oftast er kenndur við Ísafjörð en hann fæddist reyndar á Suðureyri við Súgandafjörð.

Þegar ég bjó á Ísafirði og vann í Norðurtanganum, voru böllin stunduð grimmt bæði úti í Hnífsdal og eins í Alþýðuhúsinu á Ísafirði.

Snemma árs 1974 var hljómsveitin Náð ennþá starfandi og Ýr var um það bil að stíga á pall  hið fyrsta sinni, en Rabbi var meðlimur og einn af stofnendum beggja sveitanna. Það var talsverð spenna í loftinu og þó nokkrar væntingar gerðar til hinnar nýju hljómsveitar.

Þar kom að auglýstur var dansleikur í félagsheimilinu Hnífsdal þar sem Ýr mundi stíga á svið í fyrsta skipti og ég var auðvitað einn af þeim fyrstu sem mættu. Lengi vel stóð ég og hlustaði af alefli á þetta nýja band sem svo mikið var búið að tala um og það var ekki laust við að vonbrigðin væru mikil.

Ljósmynd: LRÓ.

Hljómsveitin var bara alls ekki góð og mér fannst t.d. Náðin hafa verið miklu betri og þéttari svo ég tali nú ekki um B.G.

Prógrammið var greinilega ekki langt, mörg lögin voru spiluð aftur og aftur og mér fannst “Hooked on a feeling” með Sænsku sveitinni “Blue Swede” vera t.d. spilað a.m.k. 10 sinnum um kvöldið. En það var nú líka vinsælasta lagið á landinu eða jafnvel í öllum heiminum, hvað vissi ég svo sem?

En þetta var nú bara fyrsta ballið og líklega hefur það átt við í þessu tilfelli að fall sé faraheill.

Hálfum mánuði síðar var Ýr aftur í Hnífsdal og ég fór þangað, en með hálfum huga þó. En nú brá svo við að engu var líkara en að þarna væri komið allt annað band en síðast.

Ég fylltist mikilli hrifningu á þessum frábæru snillingum og hellti mér út í kraumandi stuðið og algleymið og týndi svo sjálfum mér að lokum eins og stundum gerðist á þessum árum. Daginn eftir vaknaði ég svo heldur slæptur og með hvimleiða lágþokubletti í kollinum þar sem hugsunin fer yfirleitt fram. En ég mundi samt alveg að það hafði verið alveg ROSALEGA gaman í gærkvöldi.

Ljósmynd Spessi

Rafn Ragnar Jónsson tónlistarmaður lést á heimili sínu í Reykjavík þ. 27. júní 2004 og var þá á fimmtugasta aldursári.

Það var sá illvígi hreyfitaugahrörnunarsjúkdómur, MND sem varð að lokum hans banamein, en Rabbi hafði glímt við hann um nokkurra ára skeið.

Forsíðumyndin er af vef Reykjavíkurborgar.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.