Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, fundaði með Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair og fleiri stjórnendum félagsins. Þau ræddu meðal annars ferðavilja, endurskipulagningu Icelandair sem hefur staðið yfir í kjölfar heimsfaraldurs og mikilvægi þess að Ísland horfi til samlegðaráhrifa menningar og ferðaþjónustu.
„Ég var sérstaklega glöð að heyra að Icelandair mun áfram bjóða okkur velkomin heim á íslensku og að ávarp áhafnar verður alltaf fyrst á íslensku. Þetta skiptir sköpum við að hjálpa okkur að standa vörð um íslenskuna. Við vitum líka að íslensk tunga, menning, tónlist og kvikmyndir eru framúrskarandi landkynning fyrir okkur ekki síður en náttúran og hefur umtalsvert aðdráttarafl. Að ávarpa farþega á íslensku fyrst styrkir þá tengingu“ segir Lilja Dögg.
Ljóst er að ferðavilji til Íslands er mikill, það sýna helstu greiningar og nú síðast þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem telur að til landsins muni koma 1,1 til 1,2 milljónir erlendra ferðamanna á þessu ári. Þá lítur bókunarstaða fyrir sumarið vel út.
„Kapphlaupið um ferðamennina er að hefjast í flestum ríkjum sem reiða sig á ferðaþjónustu. Við höfum nýtt tímann í þessum heimsfaraldri vel, styrkt innviði ferðaþjónustunnar og reynt að hlúa að greininni á erfiðum tíma. Við erum vel í stakk búin að taka þátt í þessu „kapphlaupi“ en höfum verðmætasköpun , sjálfbærni og samkeppnishæfni greinarinnar alltaf að leiðarljósi,“ segir Lilja Dögg.
Í nýjum stjórnarsáttmála er kveðið á um uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu eftir áföll heimsfaraldursins. „Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna,“ segir í honum.
Mynd /Tómas Ingason, Gísli S. Brynjólfsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group og Sylvía Kristín Ólafsdóttir – aðsend