Verið er að leggja lokahönd á starfsáætlun Erasmus+ fyrir árin 2021-2029. Ida Semey, verkefnisstjóri erlendra samstarfsverkefna í MTR var í hópi níu einstaklinga sem boðið var á ráðstefnu í Brussel í síðustu viku þar sem nýja áætlunin var kynnt.
Þarna voru liðlega 600 hagsmunaaðilar frá ráðuneytum, landsskrifstofum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, samtökum, háskólum, framhaldsskólum, fræðslusetrum og leikskólum vítt um Evrópu.
Gestum var skipt í 30 umræðuhópa og vinnustofur með mismunandi þemu. Ida segist hafa fengið tilfinningu fyrir áskorunum og tækifærum í tengslum við Erasmus+ á hverju sviði sem hún tók þátt í en ekki hafi allir verið sammála um leiðir að mismunandi markmiðum.
En flestir hafi verið fullir af eldmóði og með jákvæðar væntingar. Margir hafi verið reyndir og sagt skemmtilegar sögur. Hún hafi hitt gamla kunningja, kynnst mörgu nýju fólki og fengið tækifæri til að tala öll tungumálin sex sem hún kann.
Þá hafi samveran með Íslendingunum í ferðinni verið afar lærdómsrík og skemmtileg og mikill heiður að fá tækifæri til að taka þátt í umræðum, kynna skólann og kynnast hinu margslungna og fjölþjóðlega samfélagi sem Erasmus+ er.
Forsíðumynd af Idu Semey og Oliver Gineste