Ég sé tækifærin í eldra kennslufyrirkomulagi í Grunnskola Fjallabyggðar!

Ég ætla að segja nei við nýju fræðslustefnunni á laugardaginn.

Það eru margar ástæður fyrir því hér eru nokkrar þeirra:

1. Ég er á móti skólaakstri og finnst að hann ætti lágmarka eins og kostur er.
2. Unglingarnir vilja vera á Siglufirði á efsta stigi, þau sögðu það sjálf með undirskriftalista en það var ekki hlustað.
3.Grunnskólinn skiptist i yngsta, mið og efra stig, hlífum yngsta stiginu við skólaakstri, sameinum árgangana á miðstigi og slítum það ekki í sundur eins og nú er.
4. Samkennsla milli árganga getur verið af hinu góða en er ekki eitthvert neyðarbrauð til að spara peninga. Það er einstaklingsmiðað nám í grunnskólanum sem gerir samkennslu milli árganga á yngsta stigi að spennandi kosti.
5. Þó að yngsta stig sé ekki keyrt á milli daglega er vel hægt að leyfa börnum að kynnadt með því að hafa annað slagið sameiginlega kennsludaga og slípa hópinn saman, þarf bara smá vilja og hugmyndaflug til að gera það að veruleika.
6. Við eigum að geta veitt börnunum okkar framúrskarandi menntun í grunnskólanum án þess að keyra þau í rútu umhverfis hnöttinn á 10 árum.
7. Eldra kennslufyrirkomulag var málamiðlun sem kom til móts við fjöldan allan af sjónarmiðum sem komu fram við endurskoðun fræðslustefnu frá 2009. Það fór mikil vinna fram við þá endurskoðun og þetta varð niðurstaðan, minnka skólaakstur eins og kostur er en ná samt fram sameiningu árganga á mið og efra stigi.
Held að það hafi verið bara bærileg sátt um það fyrirkomulag og þess vegna hafi óánægja blossað upp þegar þvi var breytt án fullnægjandi samráðs við hagsmunaaðila.
8. Ég veit að núverandi fyrirkomulag fælir memendur á Siglufirði frá því að sækja MTR að grunnskóla loknum. Þau eru mörg hver skiljanlega orðinn leið á skólaakstrinum þegar 10. bekk lýkur og vilja leita annað.
9. Samhæfing fristundar og tónlistarskóla gekk bara fínt í fyrra kennslufyrirkomulagi að ég best veit þrátt fyrir fullyrðingar um annað.
10. Í eldra fyrirkomulagi var ákveðin taktur í skólaakstrinum sem gerði hann bærilegri fyrir börnin og foreldrana:
Fyrstu fjögur árin heima, börnin frá Sigló keyrðu svo í þrjú ár, Ólafsfirðingar keyrðu svo þrjú ár til Sigló og ef Siglfirðingar vildu í MTR þá keyrðu þeir þrjú ár eftir þriggja ára hlé, sanngjarnt og hæfilegt að mínu mati þó helst vilji ég engan skólaakstur.

Eldra fyrirkomulag frá 2012 var að mínu mati málamiðlun sem fjölmargir gátu sætt sig við milli þeirra sem vilja alla árganga saman og eru fylgjandi skólaakstri og þeirra sem hugnast hann ekki. Báðar þessar fylkingar sem hafa myndast hafa eitthvað til síns máls og engin leið er gallalaus. Legg til að við mætumst aftur í miðjunni og tökum aftur upp fyrirkomulagið sem var samþykkt 2012.

Texti: Ingvar Erlingsson
Mynd: Ingvar Erlingsson