Nú hefur verið ákveðið að mæta ákalli þess hóps sem sendi inn undirskriftalista um að fá að kjósa um fræðslumálin í Fjallabyggð og verður gengið til þeirra kosninga 14. apríl næstkomandi. Íbúar í Fjallabyggð hafa því tækifæri til þess að kjósa um nýju fræðslustefnuna, núgildandi stefnu, sem unnið hefur verið eftir í nær eitt skóaár.

Ég er sjálf á móti þessum kosningum. Mér er það til efs að hægt sé að kjósa svo sátt verði því sitt sýnist hverjum um þetta mál. Það er jafnvel svolítið erfitt að átta sig á hvað það er sem fólk sameinast um að sé neikvætt nema þá helst keyrslan á milli með yngsta fólkið. Sumum finnst of geyst farið í breytingum, þetta þurfi að gerast hægt og rólega og í sátt við alla.

Við stofnun Grunnskóla Fjallabyggðar komu saman námshópar og starfsmenn úr sitthvorum bæjarkjarnanum og kannski margt um ólíkir. Við höfum verið svolítið að vanda okkur í sameiningunni, reynt að halda í ýmsar venjur og hefðir úr hvorum skólakjarnanum, verið hreyfanleg milli vinnustöðva og að sjálfsögðu lagt okkur öll fram um að gera sem best.

Í átta ár höfum við verið að stíga lítil skref hverju sinni. Við höfum kennt samkennslu á yngsta stigi þessi ár og nemendur ekki sameinast fyrr en í 5.bekk. Það hefur ekki endilega verið auðvelt fyrir nemendur að koma saman í 5.bekk, staðsetja sig í jafningjahópnum og byggja upp bekkjarbrag. Einnig voru yngstu nemendur að kynnast nýjum samnemendum á hverju hausti þannig að haustönnin fór gjarnan í það að vinna nemendahópa saman.

Samstarf kennara í yngri deildum varð aldrei eins og best var á kosið. Þeir hittust á fundum um ýmis mál er varðaði skólastarfið og skipulag þess en samstarf um kennslufyrirkomulag varð aldrei þannig að það sama færi fram beggja vegna, það vantaði nálægðina.

Ég hef beðið þess með óþreyju að klára sameininguna. Ég vildi stíga skrefið til fulls strax allt niður í yngsta stig því hver breyting fyrir sig kallar á átök og óánægju að einhverju leyti þar sem bæði blandast saman tilfinningar og hræðsla gagnvart hinu ókunna og því kannski allt eins gott að klára það.

Í ytra matinu sem skólinn fór í 2015 fengum við niðurstöður sem kölluðu á breytingar til að lagfæra, bæta skólastarf og ýmsa innviði sem sneru að námsaðstæðum og tækifærum nemenda til að ná sem bestum árangri. Núverandi fræðslustefna var unnin með það mat að leiðarljósi og allt lagt í að bæta og skapa aðstæður til að jafna námstækifæri nemenda.

Það var spennandi að hefja skólaárið síðastliðið haust. Það voru miklar breytingar fyrir alla, nemendur, foreldra og starfsfólk. Þetta krafðist mikils utanumhalds og skipulags og tók smá tíma að slípa til fram eftir haustinu. Mestar urðu þó breytingarnar á yngsta stigi þar sem bekkjareiningar voru stórar og nemendur þar að kynnast. Litlu krílin að koma með rútu var það sem allir höfðu mestar áhyggjur af en það eins og annað vandist hjá þeim. Þau koma hress inn úr rútunni og hefja skóladaginn sem er svo fjölbreyttur og erilsamur að enginn má vera að því að hugsa í hindrunum. Frístundin bættist inn og því fleiri nemendur í skólahúsinu allan daginn og þar að leiðandi stanslaust líf og fjör. Með því að hafa nú alla kennara og starfsfólk á yngsta stigi á sömu starfstöð breyttist mikið og allar aðstæður til að samræma vinnubrögð, nýta fagþekkingu og kraft mannauðsins mun betri.

Óánægjuraddir hef ég heyrt varðandi miðstigið, það hafi orðið út undan í allri umræðunni. Hugsanlega mætti flytja 5. bekk til en það er ekkert í lögum, né reglugerðum sem segir að miðstig eigi að flokka sem 5.-7. bekk. Samstarf á milli bekkja getur verið á alla vegu og er það alltaf á höndum þeirra sem starfa með hverjum bekk fyrir sig að móta það samstarfi við aðrar bekkjardeildir. Í vetur hafa  4. og 5. bekkur átt afbragðs gott samstarf og 5. bekkur fengið að njóta sín sem elsti árgangur í því húsi.

Tækifærin eru spennandi í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga og eiga bara eftir að aukast. Miklar og örar breytingar eru í allri menntun. Kennsluhættir eru að breytast og kalla á fjölbreyttari útfærslu. Nemendur eiga að hafa meira að segja um nám sitt og fá meira val. Tæknin er að ryðja sér til rúms og kennslubúnaður ekki lengur bara bækur heldur ýmiskonar annar búnaður sem kallar á að kennarar og skólastofnanir uppfæri sig og þrói svo þeir fái fylgt þeim eftir og verði samkeppnisfær.

Ég upplifi marga góða hluti í skólastarfinu eftir þennan vetur og nú finnst mér sem tækifærin séu öll okkur í hag og því beri að halda áfram og byggja ofan á. Horfum til framtíðar og fyllumst metnaði skólasamfélaginu okkar til handa.

Nýtum rétt okkar til að kjósa núna 14. apríl. Ég get ekki hugsað mér að snúa til baka frá þessu nýja kerfi þannig að ég ætla að segja já.

Höfundur:

Erla Gunnlaugsdóttir sérkennari við Grunnskóla Fjallabyggðar.

Texti: Erla Gunnlaugsdóttir
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir