Á vefsíðu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings Blika.is segir að áhugavert sé að skoða útbreiðslu hafíssins nú og breytingar sem orðið hafa allra síðustu daga.
Sjá má á bláa línuritinu af síðu University of Colorado í Boulder að heildar hafísþekjan við Norður-Íshafið er minni en hún hefur verið áður. Viðmiðið er hið fræga 2012 þegar þekjan í lok sumars var innan við 4 millj. ferkílómetra. Skárra þessa sumar en hægar hefur lagt í haust samanborið við 2012.
Við sjáum á útbreiðslukortinu að mest munar um íslaus svæði þetta seint haustsins í Bauforthafi norðan Beringssunds. Hins vegar vekur það þó nokkra athygli að um þessar mundir er hafís með meira móti í Framsundi og við Svalbarða. Þarna hefur verið lítill ís að hausti flest undanfarin ár og munar þannig talsverðu á ástandi þessara mála miðað við vetrarbyrjun í fyrra.
Á hinni geysigóðu loftmynd í gær mátti sjá fleira en snævi þakið landið rúmlega til hálfs. Nýmyndanir hafíss norður af Skoresbysundi voru tilkomumiklar í kalda pólsjónum þar. Í gær var þarna hægviðri, alls ekki mikið frost, um leið og lægir og sjórinn kyrrast getur þarna frosið og lagt. Straumhvirflar nýíssins eru fyrir augað. Síðar nær hann að verða samfrosta.
Kalt verður áfram næstu daga norður með Grænlandsströndum, hár loftþrýstingur og hægir vindar. Við þannig skilyrði þéttist ísinn úr meginstraumi um Framsund og nýmyndun verður við ísjaðarinn sbr. smákortið nk. miðvikudag.
Það er því ekki allt sem sýnist þegar réttilega er talað um að hafísinn á Norðurhjaranum sé með allra, allra minnsta móti segir Einar.
Myndir: Blika.is