Atvinnuvega- og nýsköpunarráðið hefur lagt fram áformaskjal í Samráðsgátt stjórnvalda sem snýr að breytingum á lögum á sviði fiskveiða, nánar tiltekið veiðum á bláuggatúnfisk.
Ísland hefur umtalsverðar veiðiheimildir af bláuggatúnfisk á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins (ICCAT). Undanfarin ár hafa íslensk skip þó ekki stundað þessar veiðar, og fyrir vikið nýtur íslenskur sjávarútvegur ekki góðs af þessum veiðiheimildum. Veiðiheimildirnar eru eftirsóttar og mikilvægt að veiðar séu stundaðar svo íslensk skip missi þær ekki.
Skortur á búnaði
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft til skoðunar hvernig hægt væri að stuðla að því að túnfiskveiðar íslenskra skipa hefjist að nýju og verði hluti af íslenskum sjávarútvegi til framtíðar, með fullnýtingu hlutdeildar Íslands. Fyrir liggur að þörf er á sérstökum búnaði og reynslu til að stunda veiðarnar. Slíkur búnaður er ekki til staðar hjá íslenskum útgerðum eins og sakir standa.
Til að stuðla að því að veiðar geti hafist að nýju af Íslands hálfu er nauðsynlegt að í lögum séu veittar tímabundnar heimildir, í ákvæðum til bráðabirgða, þess efnis að íslenskum aðilum verði heimilað að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiða á bláuggatúnfiski, til að viðhalda veiðireynslu Íslands, kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á slíkum veiðum.
Ráðherra hyggst því leggja fram frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri með því að heimila íslenskum aðilum að taka á leigu erlend skip til veiðanna, en aðeins til veiða á bláuggatúnfiski og aðeins til bráðabirgða.
Hægt er að lesa nánar um málið í Samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur er til 18. janúar nk.