Leiðrétting á ítrekuðum rangfærslum um hjúkrunarrými.

Ítrekað hefur komið fram í umræðum og yfirlýsingum fólks um fjölgun hjúkrunarrýma að heilbrigðisráðuneytið hafi afþakkað liðsinni aðila sem boðið hafi fram hjúkrunarrými, bæði húsnæði og rekstur, af því að ráðuneytinu hafi ekki hugnast rekstrarform á hendi einkaaðila. Þetta er í öllum atriðum rangt. Síðast í gær komu í Kastljósi fram staðhæfingar um þetta þar sem skilja mátti að á þriðja hundrað hjúkrunarrýma væru tilbúin til rekstrar hjá einkaaðilum ef ráðuneytið væri reiðubúið að semja við þá. Fullyrt var að Hrafnistuheimilin væru tilbúin að taka við á annað hundrað öldruðum „í umönnun og búsetu“ og einnig að fyrir einu og hálfu ári hefðu verið boðin fram hjúkrunarrými fyrir 130 einstaklinga í Urðarhvarfi í Kópavogi. Hvoru tveggja er rangt.

Fyrirtækið Heilsuvernd bauð vissulega fram húsnæði í Urðarhvarfi 8 fyrir rekstur hjúkrunarrýma á síðasta ári fyrir umfangsmikla öldrunarþjónustu, m.a. rekstur hjúkrunarrýma. Sjúkratryggingar Íslands áttu í viðræðum við Heilsuvernd á þessu ári um slíkt verkefni. Þessum viðræðum var sjálfhætt þegar eigandi húsnæðisins (sem er ekki fyrirtækið Heilsuvernd) lýsti yfir að húsnæðið væri ekki til ráðstöfunar fyrir verkefnið. Rétt er að taka fram að ráðast hefði þurft í viðamiklar framkvæmdir og breytingar á húsnæðinu áður en að hægt hefði verið að opna þar hjúkrunarrými fyrir aldraða og sem fyrr segir stóð það húsnæði ekki til boða þegar til átti að taka.

Fyrrnefnd fullyrðing um vilja og getu Hrafnistuheimilanna um að taka við á annað hundrað öldruðum er algjörlega úr lausu lofti gripin. Aftur á móti hefur heilbrigðisráðuneytið átt í góðu samstarfi við rekstraraðila hjúkrunarheimila, þar með talda Hrafnistu sem rekur átta hjúkrunarheimili í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Reykjanesbæ, um leiðir til að fjölga hjúkrunar- og dagdvalarrýmum vegna brýnnar þarfar og meðal annars til að mæta vanda Landspítala sem hefur átt í erfiðleikum með að útskrifa fólk að lokinni meðferð, samhliða miklu álagi vegna Covid-19. Á gamla Sólvangi í Hafnarfirði verður á næstu vikum opnuð ný hjúkrunardeild fyrir 11 aldraða og eiga Sjúkratryggingar Íslands í viðræðum við Öldung hf. sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún í Reykjavík, um rekstur þeirra. Í gamla Sólvangi verða einnig opnuð í byrjun næsta árs 39 rými til skammtímadvalar og endurhæfingar fyrir aldraða. Þessu til viðbótar standa nú yfir miklar húsnæðisframkvæmdir við húsnæði Landspítala á Landakoti vegna opnunar 30 nýrra endurhæfingarrýma og hefur hluti þeirra þegar verið tekinn í notkun.

Einkaaðilar og sjálfseignarstofnanir sinna umfangsmiklum rekstri hjúkrunarheimila hér á landi og hafa gert til margra áratuga. Um uppbyggingu húsnæðis hjúkrunarheimila og rekstur þeirra gilda sömu lög, reglur og viðmið, hvort heldur sem í hlut eiga opinberir aðilar eða einkaaðilar. Heilbrigðisráðuneytið fagnar öllu frumkvæði sem rúmast innan laga og reglna og leitt getur til skjótrar fjölgunar hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Heilbrigðisráðuneytið

Mynd: Ríkiseignir