Sterkar vindhviður gerðu það að verkum að í Ólafsfirði fauk um koll jólaskraut og jólahús í gærmorgun, einnig eyðilögðust jólaseríur sem þar voru. Vaskir starfsmenn Fjallabyggðar brugðust skjótt við, komu til að rétta húsin við og bjarga því sem bjargað varð.
Eftir sem áður er afar jólalegt í Ólafsfirði þrátt fyrir snjóleysið. Veðurspá næstu daga er fremur meinhægt veður eins og spá Veðurstofunnar ber með sér.
Á morgun er spáð suðaustan 13-20 en hægari breytileg átt suðvestanlands. Víða rigning, talsverð eða mikil rigning um landið suðaustanvert fram eftir kvöldi. Austan átt 8-13 á morgun, skúrir og hiti 0 til 5 stig, en hægari, þurrt og vægt frost norðantil.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Hæg austlæg átt, skýjað með köflum og þurrt en skúrir suðaustanlands. Hiti 0 til 4 stig en frost 0 til 4 stig norðvestantil.
Á föstudag og laugardag:
Norðaustan 3-10 og smáskúrir norðaustantil á landinu, en bjart með köflum suðvestanlands. Vægt frost en frostlaust með suðausturstöndinni.
Á sunnudag (Þorláksmessa):
Hæg breytileg átt, bjart veður og frost 0 til 7 stig, en dálítil slydda vestast á landinu og hlýnar.
Á mánudag (aðfangadagur jóla):
Útlit fyrir suðvestanátt með rigningu, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 1 til 6 stig.
Myndir: Guðmundur Ingi Bjarnason