Karamelludraumur með daimrjóma og jarðaberjum
- 1 dós sæt niðursoðin mjólk (400 g) eða tilbúin dulce de leche í krukku (fæst t.d. í Hagkaup)
- 150 g smjör
- 300 g digestivekex
- 1 l. jarðaber
- 1 poki (100 g) daimkúlur eða 3 fínhökkuð daim
- 3 dl rjómi
Karamellan (ef notuð er tilbúin Dulce de leche er hoppað yfir þetta skref): Leggið óopnaða dós með sætri niðursoðinni mjólk í stóran pott. Hellið vatni yfir svo það nái vel yfir dósina. Látið sjóða við vægan hita í 2½ klst. án þess að vera með lok á pottinum. Passið að vatnið sé alltaf yfir dósinni, það gæti þurft að bæta vatni í pottinn þegar líður á tímann.
Takið heita dósina úr pottinum og kælið undir köldu vatni. Látið dósina kólna alveg áður en hún er opnuð. Núna er niðursoðna mjólkin orðin að karamellu.
það er hægt að kaupa karamelluna tilbúna í krukkum. Þá heitir hún Dulce de leche sauce.
Smyrjið 24 cm form með lausum botni eða klæðið botninn með smjörpappír. Bræðið smjörið. Myljið digestivekexið í matvinnsluvél. Hellið smjörinu saman við og vinnið saman við kexmylsnuna. Þrýstið kexblöndunni í botninn á forminu og látið svo harðna í ísskáp í um klukkustund.
Hellið karamellunni yfir kexbotninn. Þeytið rjómann og blandið 2/3 af daimpokanum saman við. Breiðið rjómann yfir karamelluna. Leggið jarðaberin yfir og stráið restinni af daim yfir.
Látið kökuna standa í ísskáp þar til hún er borin fram.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit