Í gær kl. 18.00 opnaði Hólmfríður Vídalín Arngríms keramiker, jólamarkað á vinnustofu sinni sem stendur spölkorn frá Ólafsfirði að Burstabrekkueyri, austanmegin. Vinnustofan verður opin um helgina, í dag frá kl. 12.00 – 16.00 og á morgun sunnudaginn 25. nóvember frá 13.00 – 16.00. Boðið verður upp á 15% afslátt af öllum vörum um helgina.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar útnefndi Hólmfríði nýverið sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019 og er hún vel að þeirri tilnefningu komin.

Falleg keramik listaverk
Hólmfríður er fædd í Reykjavík og hefur búið í Ólafsfirði frá árinu 1976 og hefur starfað að myndlist með leir sem aðalefni í 28 ár.
Á árunum 2009 – 2012 stundaði hún nám við keramikdeild Århus kunstakademi í Danmörku. Frá árinu 2016 hefur hún stundað nám í myndlist við Menntaskólann á Tröllaskaga.

Hólmfríður hefur hannað og unnir falleg ljós í ýmsum litum og útfærslum
Hólmfríður hefur tekið þátt í samsýningum í Danmörku og á Íslandi í Reykjavík, á Akureyri og Dalvík. Hún átti verk á sýningunni Keramik í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016.
Hólmfríður er félagi í hinum ýmsu félagasamtökum s.s. SÍM félagi myndlistamanna, Leirlistafélagi Íslands, Myndlistafélagi Akureyrar, Handverk og Hönnun og Kunsthåndværkere og Designere.

Þessi egglaga listaverk eru hol að innan
Hólmfríður vinnur aðallega við gerð skúlptúra og einstakra nytjahluta en frá 2018 hefur hún eingöngu unnið skúlptúra úr verkum sem hafa misheppnast í vinnslu, gefið þeim nýtt líf og bætt. Til þess notar hún ólík efni eins og nagla, vír, hænsnanet o.fl.
Innblásturinn af vinnu sinni fær hún innra með sér og frá hinni öfgafullu náttúru Íslands. Hver hlutur í listaverkum Hólmfríðar er einstakur í bæði áferð og formi enda spilar hún með bæði liti, glerunga og brennslu þar til hún sér jafnvægið í verkinu.

Hólmfríður hefur verið að hanna og vinna listaverk úr allskonar efni eins og t.d. hænsnaneti og steinum sem hún tínir sjálf

Nadia Sól barnabarn Hólmfríðar fær að vinna þessa fallegu muni sjálf

Þessi listaverk vann Hólfríður á meðan hún var í námi

Vasi

Mjög falleg lýsing kemur frá þessum lömpum

Vasi sem tók upp á því að brotna við brennslu og úr varð hið glæsilegasta listaverk

Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Hólmfríði

Einstaklega fallegir litir eru á munum Hólfríðar

Allskonar smámunir eru einnig á boðstólnum

Að drekka kaffi úr vönduðu handverki gerir upplifunina svo miklu betri

Boðið var upp á girnilegar kræsingar af ýmsu tagi, takið eftir tvíreykta hangilærinu sem hangir í loftbitanum

Fallegur vasi

Algjört listaverk

Þarna má sjá blómapott sem er í vinnslu, það tekur allt að því 6 daga að fullvinna listmunina
Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir