KF fékk Vængi Júpíters í heimsókn á Ólafsfjarðarvöll í dag í blíðskapar veðri. Leikurinn hófst klukkan 14:00 og var mætingin á völlinn nokkuð góð. Byrjunarliðið var óbreytt frá sigurleiknum gegn Sindra á Höfn í Hornafirði síðustu helgi.

KF byrjaði með boltann og sást strax að liðið var mjög einbeitt og að liðið ætlaði sér að vinna þennan leik. KF náði flottu spili upp völlinn og fengu þeir nokkur færi sem strákarnir hefðu átt að nýta betur. Vængir sóttu aðeins í sig veðrið þegar líða fór á leikinn en vörn KF var stórkostleg í dag og náðu vængir ekki að skapa sér nein færi sem hætta var af. Flautað var til hálfleiks og var staðan 0-0.

Seinni hálfleikur fór af stað vel fyrir KF og héldu þeir boltanum mjög vel. Á 64. mínútu dróg svo til tíðinda þegar leikmaður númer 3, Hákon Leó Hilmarsson skorar og kemur KF yfir 1-0. Þetta var hans fyrsta mark á tímabilinu og hans annað með meistaraflokk KF í 51 leik. Á 67. mínútu fá Vængir aukaspyrnu út á miðjum velli og senda þeir boltann inn í og eftir mikinn darraðardans inn í teig KF nær leikmaður númer 25, Andri Snær að þruma boltanum fram völlinn og þar er leikmaður númer 11, Grétar Áki mættur og stingur varnarmenn Vængjanna af, fer svo fram hjá markmanni Vængjanna einnig og setur boltann í autt markið. Staðan orðin 2-0 fyrir KF á stuttum kafla. Vængir áttu sláarskot og tvö stangarskot og voru það hættulegustu færin þeirra en KF stóð vaktina vel og landið frábærum 2-0 sigri.

Gaman er að segja frá því að KF hefur nú haldið hreinu í 6 deildarleikjum og sýnir það að varnarleikur liðsins er í mjög góðu standi og markaskorunin er búin að batna helling frá erfiðri byrjun á tímabilinu.

Með þessum sigri á vængjum kemst KF uppí fjórða sæti deildarinnar með 22 stig og eru þeir aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu en þar er KH með 24 stig og í þriðja sæti er KFG með 23 stig.

Næsti leikur KF er laugardaginn 25. ágúst á Þorlákshöfn en þá mætir liðið Ægi. Ægir er í mikilli fallbaráttu og verður því leikurinn mjög mikilvægur fyrir bæði liðin.

 

Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Frétt: Knattspyrnufélag Fjallabyggðar