Síðasta vika var miðannarvika við Menntaskólann á Tröllaskaga og þá er engin hefðbundin kennsla.
Kennarar sinna námsmati og undirbúa síðari hluta annarinnar en nemendur í staðnámi fást við ný og fjölbreytt verkefni í vikunni og njóta leiðsagnar nýrra kennara.
Að þessu sinni gátu nemendur valið milli tveggja námskeiða; kínversku og útivistar. Teresa Cheung leiðbeindi nemendum í kínversku en hún er kennaranemi í starfsnámi í MTR. Nemendur fengu að kynnast mandarin, sem er útbreiddasta tungumálið í Kína, æfðu sig að skrifa letrið með pensli ásamt því að kynnast kínverskri menningu og sögu.
Diljá Helgadóttir raungreinakennari stýrði útivistinni. Þar var m.a. farið á gönguskíði, farið á skíðasvæðið í Siglufjarðarskarði og einn daginn gengu krakkarnir á skíðum eftir endilöngu Ólafsfjarðarvatni.
Smellið hér til að sjá myndir frá miðannarvikunni.
Skólastarfið er nú komið í eðlilegt horf á ný en þó eru nokkrir nemendur og starfsmenn frá vinnu vegna covid smita. Val fyrir næstu önn er byrjað og á næstunni verður opnað fyrir umsóknir í fjarnám.
Forsíðumynd/Brettakapparnir Hafsteinn Úlfar og Jón Frímann í Siglufjarðarskarði.
Ljósmynd: Hrannar Breki Gunnlaugsson.