Afar viðamiklar framkvæmdir eru nú hafnar á svæðinu í kringum kirkjutröppurnar á Akureyri og verður svæðið lokað almenningi fram í október.
Hér að neðan er talið upp það helsta sem gert verður:
- Núverandi kirkjutröppur verða fjarlægðar og allt sem þeim tilheyrir.
- Neðri hluti trappanna er ofan á þakplötu húsnæðis sem hýsti áður almenningssalerni og þarf að hreinsa allan jarðveg ofan af því niður að þakplötu, vatnsþétta hana með ábræddum pappa, jarðvegsfylla að nýju og steypa nýjar tröppur þar ofan á með hellulögðum millipöllum.
- Efri hlutinn verður síðan steyptur upp ofan á fyllingu og tröppurnar lagðar granítskífum.
- Í verkinu felst að setja snjóbræðslukerfi í tröppur og palla og lýsingu við tröppurnar.
- Einnig verða settar niðurfallsrennur og dren frá öllum pöllum í tröppunum og það tengt fráveitukerfi.
- Grafið verður frá vegg ofan við göngin undir kirkjutröppurnar, hann vatnsþéttur og komið fyrir drenlögnum við vegginn.
- Stígurinn til suðurs frá kirkjutröppunum að Sigurhæðum verður byggður upp með viðunandi hætti.
Sem sjá má á lýsingunni að ofan, eru þetta afar umfangsmiklar framkvæmdir sem munu taka um fjóra mánuði og eru verklok áætluð í október nk.
Hér að neðan er loftmynd sem sýnir þær gönguleiðir sem best er að nota meðan kirkjutröppurnar eru lokaðar.
Athugið að gamall stígur frá Sigurhæðum upp á Eyrarlandsveg hefur verið endurnýjaður til að auðvelda umferð gangandi vegfarenda um hann.