Edda Björk Jónsdóttir sem búsett á Siglufirði hefur sankað að sér mörgum kjólum í gegnum tíðina og skartar þeim jafnframt dags dagslega og við öll tækifæri.
Hún hefur farið óhefðbundnar leiðir í aðdraganda jóla þegar jóladagtölin taka á sig óteljandi myndir, hún fer í kjólana sína, gerir seitt eigið “kjóladagatal” og skrifar persónulega og skemmtilega texta við hverja mynd.
1. desember 2023
Þeir sem að þekkja mig vita að ég á afskaplega mikið af kjólum. Kjólaáhuginn kviknaði snemma og hefur móðir mín oft talað um að ég sé haldin eins konar kjólablæti, og ég held að það hugtak eigi bara nokkuð vel við mig. Kjólasafnið er slíkt að stundum hef ég orðið að eins konar kjólaleigu og lánað kjóla í alls kyns verkefni, eins og leiksýningar, tónleika og fleira. Kjólarnir eru af öllum stærðum og gerðum: sparilegir, hversdagslegir, nýmóðins, notaðir og allt þar á milli. En nú er desember genginn í garð, og það þýðir bara eitt: Kjóladagatal 2023 hefur göngu sína.
2. desember 2023
Undanfarin ár hef ég gert það í desember að birta eina kjólamynd á dag fram að jólum. Í fyrstu byrjaði þetta sem létt glens, og var mest útrás fyrir flipp-konuna sem ég er. En með árunum fór kjóladagatalið að taka á sig aðra mynd og verða eins konar listræn útrás sem litast mikið af því sem er að gerast í lífi mínu hverju sinni. Árið 2023 hefur einkennst af mikilli sjálfsvinnu og eflingu, og ég hef verið að læra að ögra sjálfri mér, stíga út fyrir þægindarammann og gera hluti ein. Eins og að ferðast. Það er fátt jafn frelsandi en að ferðast ein, en fyrir tveimur árum hefði mér svo sannarlega ekki dottið í hug að skella mér ein í tjaldferðalag en þetta árið ferðaðist ég um landið, og að sjálfsögðu með ferðatösku fulla af kjólum meðferðis – því þótt ég ferðist ein þýðir það ekki að ég geti ekki ferðast með stæl.
3. desember
Í júní skellti ég mér í Vestfjarða-reisu, henti kjólum og tjaldi í bíllinn og keyrði af stað. Mætti til Patreksfjarðar og hófst handa við að tjalda, auðvitað í kjól. Stillti upp þrífætinum og fór að taka myndir. Leið eins og bjána. Borðaði pylsu, og tók myndir. Vakti furðu erlendra ferðamanna sem komu og spurðu mig hvað ég væri eiginlega að gera útskýrði fyrir þeim kjólablætið og kjóladagatalið, og var upp frá því kölluð “calendar-girl” af hollenskum hjónum á besta aldri.
4. desember
Ég er í eðli mínu frekar lofthrædd og bílhrædd týpa. Einhvern veginn fannst mér samt góð hugmynd að kíkja við á Rauðasandi ein í bíl, en vegurinn þangað er vægast sagt hryllingur. Vestfirðir hafa marga kosti – en vegirnir geta seint talist til þeirra. Kófsveitt af stressi og við það að fá kvíðakast komst ég þó einhvern veginn á leiðarenda en háskaförin var svo alveg þess virði, því önnur eins náttúruperla er vandfundin. Ég skellti auðvitað upp þrífætinum og hófst handa við myndatöku. Leið eins og “wannabe” áhrifavaldi. Deildi ströndinni með hópi ungra ferðamanna sem skildu ekkert í þessari kellingu sem var að þykjast vera eitthvað kúl.
5. desember
Látrabjarg – alveg hreint magnað. En aftur þurfti ég að horfast í augu við bíl- og lofthræðsluna. Ég skil ekki alveg hvernig erlendir ferðamenn í massavís keyra þessa vegi þarna á Vestfjörðum eins og ekkert sé, því ég var yfirleitt að drulla á mig. En þangað komst ég, í blómakjól, vopnuð þrífætinum góða. Það var mjög mikið af ferðafólki og mér leið alveg pínu hallærislega að vera að taka svona myndir af sjálfri mér en ekki stórbrotinni náttúrunni – talandi um að vera upptekin af sjálfri sér en ég lét það ekki stoppa mig og hélt ótrauð áfram að taka myndir. Svo heyri ég allt í einu kallað: “Hey! Calendar-girl!” Og þá voru að sjálfsögðu mætt hollensku hjónin sem ég kynntist á tjaldsvæðinu Patreksfirði svona öðlaðist ég næstum því heimsfrægð á Vestfjörðum.
6. desember
Á ferðalagi mínu um Vestfirði stoppaði ég eitt sinn uppi á heiði (á milli Bíldudals og Þingeyrar). Það var yndislegt veður, lítil umferð og kyrrðin alveg mögnuð – ekki einu sinni fuglar á svæðinu. Mér fannst ég eiginlega vera eins og Palli sem var einn í heiminum. Þegar ég var búin að sitja ein og njóta kyrrðarinnar svolítinn tíma ákvað ég að skella í nokkrar kólamyndir, en þegar ég var nýbúin að stilla upp þrífætinum þá kom fólk akandi sem ákvað að stoppa líka. Mér fannst sjúklega vandræðalegt að fólk sæi mig vera að taka svona myndir af sjálfri mér, svo ég lét eins og ekkert væri, ég væri bara þarna uppi á heiði að chilla í síðkjól – svona eins og maður gerir.. En fólkið var ekkert að flýta sér svo ég ákvað bara að halda mínu striki og taka myndir af sjálfri mér. Og fyrr en varir var fólkið farið að taka myndir af mér. Þetta var í annað skiptið sem ég öðlaðist næstum því heimsfrægð á Vestfjörðum. Hver veit nema fólkið sé búið að prenta myndirnar út og hengja upp á vegg hjá sér. Hver veit.
7. desember
Á leið minni til Ísafjarðar stoppaði ég í fjöru rétt hjá Þingeyri. Það var 20 stiga hiti, skýjað og dásamlegt veður. Ég eyddi líklega tveimur klukkustundum þarna í fjörunni, í síðkjól, hoppandi um eins og asni að leika mér og taka kjólamyndir. Slík voru lætin að það mætti selur að fylgjast með fíflalátunum. Ég söng fyrir kauða sem fannst þetta allt frekar furðulegt hjá mér, en þá bættist svanur við kompaníið og fór að syngja með. Alveg mögnuð stund sem við áttum þarna þrjú saman og eitt af uppáhalds augnablikunum mínum úr Vestfjarða-ævintýrinu.
8. desember
Ég eyddi nokkrum dögum á Ísafirði á ferðalagi mínu, sem var alveg frábært. Eini gallinn var að sumarið ákvað að nú væri komið gott af tveggja stiga hitatölum, ég var orðin of góðu vön. Það var alveg ákveðin upplifun að sofa í tjaldi nánast við frostmark í lok júní – ekta íslenskt sumar Þegar ég fór frá Ísafirði var þriggja stiga hiti – en er það ekki einmitt fullkomið veður fyrir síðkjól?
9. desember
Það sem mér fannst einna skemmtilegast við Vestfirðina voru þessi margbrotnu fjöll. Þótt ég sé umlukin fjöllum alla daga á Norðurlandinu þá eru vestfirsku fjöllin svo allt öðruvísi. Á leiðinni á Djúpavík sá ég þetta magnaða fjall og varð að stoppa og taka myndir. Þvílík kyrrð og náttúrufegurð, ekkert fólk nálægt. Þá er kjörið að grípa tækifærið og sleppa af sér beislinu, fíflast og hafa gaman þegar enginn er á svæðinu til að dæma mann. Og þarna var ég, hoppandi kát og tók ekki eftir því þegar bíll nálgaðist mig og keyrði svo framhjá mér, löturhægt með heila fjölskyldu innanborðs. Öll gláptu þau og góndu á þessa stórfurðulegu miðaldra kellu sem var hoppandi eins og bjáni úti í móa að taka myndir af sér. Mér hefur sjaldan fundist ég vera jafn “kúl”. Ég get ekki talið öll skiptin sem ég gerði mig að fífli í þessari Vestfjarðaferð.
10. desember
Það er eitthvað alveg stórkostlegt við það að vera ein með sjálfri sér úti í náttúrunni, og það var svo sannarlega það sem ég naut mest við Vestfjarðaævintýrið mitt. Að vera ein einhvers staðar úti í móa, hoppandi, hlaupandi, syngjandi og að láta eins og bjáni var eitthvað svo frelsandi. Þetta var klárlega eitt besta og skemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið í, og ég komst að því að ég er ekki svo slæmur félagsskapur eftir allt saman. Síðasta stoppið í Vestfjarðaævintýrinu var þessi fallega græna laut sem ég fann rétt hjá Hólmavík.
11. desember
Eins og það er gaman að ferðast þá er alltaf best að koma aftur heim, heim til Siglufjarðar. Þótt vestfirsku fjöllin séu stórkostleg, þá finnst mér siglfirsku fjöllin alltaf best og já, það er allt eðlilegt við að fara í fjallgöngu í kjól.
12. desember
Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við íslenskar sumarnætur þegar sólin rétt snertir sjóndeildarhringinn og fer svo aftur upp. Í sumar fór ég stundum niður í fjöru á Siglufirði að fylgjast með sólarupprásinni, og þvílíkir töfrar! Þessar myndir eru teknar í byrjun júlí milli kl 3 og 4 að nóttu til og birtan var alveg mögnuð.
13. desember
Þótt að dagsbirtan sé af skornum skammti þessa dagana þá er búin að vera svo ótrúlega falleg birta undanfarið. Ég fór upp á Reykjarhól í Fljótunum með mömmu og pabba um daginn í ljósaskiptunum og það var svo fallegt. Varmi var auðvitað með í för og fékk að vera með í kjóladagatalinu þetta árið.
14. desember
Það hefur verið mikið markmið á þessu ári að ögra sjálfri mér og stíga út fyrir þægindarammann. Ein áskorun þessa árs var að reyna að læra á gönguskíði. Ég get ekki sagt að ég sé orðin neitt sérstaklega góð á þeim, og ég hef yfirleitt bara farið ein að skíða svo ég verði mér ekki til skammar fyrir framan annað fólk en hálfnað er verk þá hafið er – er það ekki annars?
15. desember
Önnur náttúruperla sem ég heimsótti síðastliðið sumar var Snæfellsnesið. Ég stoppaði á fallegum útsýnisstað á leiðinni í Stykkishólm, stillti upp þrífætinum og fór að taka myndir. Þá komu að mér eldri erlend hjón sem fannst eitthvað skrýtið að ég væri að nota svona apparat (þrífótinn) og spurðu hvort þau ættu ekki bara að taka myndirnar fyrir mig. Eftir á að hyggja hefði ég kannski átt að þyggja það hjá þeim og sjá hvernig myndirnar kæmu út. Það hefði mögulega verið þess virði að sjá á þeim svipinn þegar ég fór að hoppa fyrir myndatökuna.
16. desember
Kjóladagatalið í dag er tileinkað síldarstúlku lífsins og gula síldarpilsinu hennar, hennar elsku Biddu okkar, sem við kveðjum í dag. Elsku Bidda mín takk fyrir allar dásamlegu stundirnar. Takk fyrir allan sönginn, hláturinn og fyrst og fremst alla gleðina sem þú smitaðir alltaf frá þér. Takk fyrir að kenna mér að salta síld og garga á mig þegar ég lagði vitlaust niður eða kvartaði yfir því að hafa brotið nögl. Ég á alltaf eftir að hugsa til þín þegar ég fer í síldarpilsið, munda síldarhnífinn og hvolfi mér ofan í tunnuna, en það er nokkuð ljóst að það verður ekki eins að salta án þín. Mikið á ég eftir að sakna þín, en ég mun alltaf minnast þín með gleði í hjarta. Takk fyrir allt elsku Bidda.
17. desember
Á Snæfellsnesi rakst ég á þetta fjall: Drápuhlíðarfjall. Mér fannst það svo skemmtilega óvenjulegt, nánast eins og það væri photoshoppað eða málað. Fullkominn bakgrunnur fyrir kjólamynd.
18. desember
Eitt af því skemmtilega við að ferðast á Íslandi er öll náttúran, óbyggðin og víðáttan. Það þurfti ekki alltaf mikið til að gleðja mig, til dæmis rakst ég á grjótnámu sem mér fannst alveg fullkomin fyrir myndatöku.
19. desember
Ekki mynd af eldgosi, bara ég og Snæfellsjökull að chilla.
20. desember
Loksins snjór Winter Wonderland.
21. desember
Allt á kafi í snjó Það þýðir bara eitt – snjómokstur!
22. desember
Vetrarsólstöður – stysti dagur ársins. Fullkominn tími fyrir smá lautarferð með heitu súkkulaði og Mackintosh.
23. desember
Þorláksmessa og korter í jól. Ég ætla ekki að fá mér skötu í dag, en ég ætla samt að liggja eins og skata og slappa aðeins af. Er ég búin að öllu fyrir jólin? Nei, en það er allt í lagi, því jólin koma alveg þótt það náist ekki að baka 10 sortir eða þrífa húsið hátt og lágt. Gleymum ekki að staldra aðeins við og njóta líka.
24. desember
Kjóladagatalið kveður að sinni ég þakka samfylgdina og óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Með ósk um frið og kærleika, kjólakonan.
Myndir/ Edda Björk Jónsdóttir