Á dögunum var ákveðið að ekki yrði kjörinn Íþróttamaður Fjallabyggðar þetta árið né veittar viðurkenningar vegna árangurs í íþróttum líkt og gert hefur verið um áratuga skeið.

Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess að ekkert íþróttafélag hefur getað haldið úti venjubundnu íþróttastarfi á árinu og aðeins örfá getað tekið þátt í mótum og keppni. Því eru litlar og í flestum tilfellum engar forsendur að byggja á til að útnefna besta og efnilegasta íþróttafólkið.

Í bréfi sem aðildarfélögum UÍF barst á dögunum frá þeim sem standa að útnefningunni segir m.a.:

“Eins og öllum er kunnugt hefur yfirstandandi ár verið vægast sagt einkennilegt vegna þeirrar plágu sem hrellir umheiminn. Íþróttaiðkun hefur ekki farið varhluta af því og mörg félög ekki getað lokið ársstarfi sínu, eða keppni og mótaþátttöku.

Vegna aðstæðna hafa þeir aðilar sem standa að kjöri íþróttamanns ársins í Fjallabyggð, þ.e. Kiwanisklúbburinn Skjöldur og ÚÍF ákveðið að fella niður allt kjör og viðurkenningar til íþróttafólks á árinu 2020. Við vonumst til að gera þetta veglegar á árinu 2021. Kjör íþróttamanns ársins þetta árið fellur því niður vegna aðstæðna.

Óskum öllu íþróttafólki og velunnurum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir liðin ár. Hittumst hress að ári til að fagna árangri okkar fólks.”

Myndin er frá útnefningu íþróttamanns ársins í Fjallabyggð árið 2019.