Einn vinsælasti valáfanginn í MTR á vorönninni fjallaði um afrekskonur á ýmsum sviðum mannlífsins.
Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga, MTR má lesa:
Birgitta Sigurðardóttir, kennari í upplýsingatækni fékk hugmynd að áfanganum snemma á síðasta ári. Markmiðið var að beina kastljósi að konum í nútíð og fortíð. Í fyrstu vikunni fengu nemendur að setja fram óskir um viðfangsefni og verkefnaskil. Hugmyndir þeirra féllu vel að hugmyndum kennarans en nemendur bættu þó einhverju við það sem Birgittu hafði dottið í hug.
Efni áfangans var þemaskipt. Í upphafi skoðuðu allir sketsinn úr síðasta áramótaskaupi þar sem kvenkyns fréttastjóri og karlkyns fréttamaður ræddu verkefnaskil og hann nefndi aldrei á nafn konurnar sem voru gerendur í fréttunum. Önnur þemu voru t.d. afrekskonur í vísindum og íþróttum, frumkvöðlar, aktivistar, fatlaðar konur, rithöfundar, myndlistarkonur, tónlistarkonur o.fl. Verkefnin sem nemendur skiluðu voru á formi myndbanda, hlaðvarpa, ritgerða, veggspjalda, glærukynninga og skýrslna. Þetta er einkar fróðlegt efni sem varpar ljósi á mikilvægt framlag kvenna á fjölmörgum og ólíkum sviðum.
Efnið er aðgengilegt hér: sites.google.com/mtr.is/saga2kk