Í vikunni komu þýsk hjónaefni Wolfram Morales og Annette Seiltgen alla leið til Siglufjarðar til að gifta sig.
Forsaga málsins er á þá leið, að á þeirra heimaslóðum getur tekið marga mánuði að fá tíma hjá fógeta til að gifta sig, vegna þess hve bókunar fyrirkomulagið er þungt þar í landi. Þá kom upp hugmyndin um að gifta sig á Íslandi, nánar tiltekið í Reykjavík, en einnig þar getur biðin verið nokkuð löng. Gegnum kunningsskap fréttist af því að á Siglufirði væri hægt að gifta sig hjá sýslumanni með stuttum fyrirvara. Það var því ákveðið að slá til og fara í skemmtiferð til Siglufjarðar og gifta sig í leiðinni.
KS-Art Photography á Siglufirði var beðin um að taka brúðkaupsmyndirnar, sem einnig var hægt að panta með stuttum fyrirvara.
Þegar verðandi brúðgumi var búinn að finna út hve smurt þetta gæti gengið hér, ákvað vinur hans og unnusta vinarins að slást í hópinn og gifta sig líka á Siglufirði !
Trölli.is og KS-Art Photography óska brúðhjónunum velfarnaðar.
Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: KS-Art Photography